Nýjast á Local Suðurnes

Andstæðingar stóriðju í Helguvík: “Glapræði að reisa enn eina kísilverksmiðju í Reykjanesbæ”

Andstæðingar stóriðju í Helguvík hafa sent frá sér ályktun vegna frétta af höfnun Úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála á kæru vegna starfsleyfis Thorsil til reksturs kísilmálmsverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Veiting starfsleyfisins var kærð af nokkrum félagasamtökum og íbúa í Reykjanesbæ.

Í ályktuninni, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan segir meðal annars að frávísun kærunnar og þar með staðfesting á starfsleyfi fyrirtækisins sé skeytingarleysi gagnvart vilja bæjarbúa. Þá skora samtökin á Umhverfis- og auðlindaráðherra, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og aðrar viðeigandi stofnanir ásamt Reykjanesbæ að þau beiti sér fyrir því að stöðva það stóriðjubrölt sem á sér stað í Helguvík nú þegar.

Ályktunin í heild sinni:

Ályktun frá Andstæðingum Stóriðju í Helguvík. Í ljósi frétta gærdagsins þar sem fram kemur að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnar kæru á veitingu starfsleyfis til handa Thorsil ehf sem áformar að reisa kísilverksmiðju í Helguvík vill stjórn Andstæðinga stóriðju í Helguvík koma eftirfarandi á framfæri.

Andstæðingar stóriðju í Helguvík eru alfarið á móti því að fleiri mengandi kísilver rísi í Helguvík. Nú þegar er ekki vitað hvaða áhrif mengun þessa eina ofns sem starfræktur er af United Silicon í Helguvík mun hafa á heilsu íbúa Reykjanesbæjar. Umhverfisstofnun ásamt fjölda norskra sérfræðinga vinna hörðum höndum að því að finna út hvaða efni þar eru á ferðinni.

Það glapræði að ætla sér að reisa enn eina kísilverksmiðju í Reykjanesbæ með fleiri ofnum sem er algert skeytingarleysi gagnvart vilja okkar íbúa Reykjanesbæjar. Flest allir ef ekki allir bæjarbúar hafa fengið sig fullsadda af þeirri tilraunastarfsemi, vandræðagangi og verulega skertu lífsgæðum sem hefur fylgt þessum eina ofni sem starfræktur er nú þegar í Helguvík.

Stjórn ASH telur að hægt sé að fullyrða að ófyrirséð mengun muni fylgja kísilveri Thorsill í Helguvík og að sérstök skilyrði Umhverfisstofnunar í starfsleyfi félagsins breyti engu þar um ef þessar tvær verksmiðjur fá að starfa hlið við hlið í innan við kílómetra fjarlægð við næstu íbúabyggð.

Við í stjórn ASH skorum á Umhverfis- og auðlindaráðherra, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og aðrar viðeigandi stofnanir ásamt Reykjanesbæ að þau beiti sér fyrir því að stöðva það stóriðjubrölt sem á sér stað í Helguvík nú þegar með öllum tiltækum ráðum.

Fyrirhönd Andstæðinga stóriðju í Helguvík

Einar M Atlason Formaður ASH.