Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til við bæjarstjórn að óskað verði eftir fjárhaldsstjórn yfir Reykjanesbæ

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að óska eftir því bæjarstjórn að hún samþykki á fundi sínum þ. 19. apríl næstkomandi að óskað verði eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn.

Þetta er gert í ljósi þess að þó að meirihluti kröfuhafa, sem tillagan tók til, hafi samþykkt tillögu að samkomulagi um heildarendurskipulagningu er það ekki nægjanlegt og því telur bæjarráð að viðunandi niðurstaða í viðræðunum hafi því ekki náðst.

…Meirihluti bæjarráð stendur því við fyrri ákvörðun sína og leggur til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að hún samþykki á fundi sínum þ. 19. apríl nk. að óskað verði eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn. Segir meðal annars í bókun meirihluta bæjarráðs sem lögð var fram á fundinum.

Fulltrúar minnihluta lögðu einnig fram bókun á fundinum, þar sem meðal annars kemur fram að minnihlutinn telji óljóst hvaða áhrif beiðni um fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu muni hafa í för með sér og að sveitarfélagið sé betur sett undir stjórn kjörinna fulltrúa og núverandi bæjarstjóra.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekum skoðun okkar að hagsmunum íbúa Reykjanesbæjar sé betur borgið í höndum kjörinna fulltrúa bæjarstjórnar og bæjarstjóra en í höndum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Algjör óvissa er um hvaða áhrif sú ákvörðun mun hafa á þjónustu og rekstur sveitarfélagsins til næstu ára. Segir meðal annars í bókun minnihluta.