Nýjast á Local Suðurnes

Steingrímsen fær ekki að stækka

Eigandi fasteignar á lóðinni Víkurbraut 3, í Reykjanesbæ, óskaði eftir rökstuðningi umhverfis- og skipulagsráðs fyrir höfnun á viðbyggingu við fasteign, en óskað hafði verið eftir heimild til stækkunar fyrr á árinu.

Umhverfis- og skipulagsráð telur rekstur vélsmiðju ekki samræmanlegan 600 íbúða byggð sem rís í nágrenninu á næstu árum eða ferðaþjónustu sem lögð er áhersla á við uppbyggingu svæðisins eins og fram kemur í stefnu Reykjaneshafna og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035, segir í rökstuðningi, sem birtur er í fundargerð ráðsins.

Starfsemi vélsmiðju fylgir hávaði við málmvinnslu og notkun á stórum og þungum búnaði. Með stækkun húsnæðis er viðbúið að starfsemin aukist.

Það er viðbúið að með þéttingu byggðar fylgdu réttmætar kvartanir vegna starfsemi og yfirbragðs starfsemi vélsmiðjunnar, því meiri sem sem uppbygging er því þyngra verður að taka á óhjákvæmilegum breytingum á landnotkun og fylgja eftir kröfum til starfseminnar innan miðsvæðisins. Fylgja þarf eftir ákvæði í grein 4.4.1 að starfsemi fari jafnan fram á almennum vinnutíma virka daga og starfsemi um helgar sé takmörkuð.

Þegar litið er til greina 4.4, 4.4.1 og kaflans um M9 Vatnsnes eru engin atriði sem leggjast með rekstri vélsmiðju á svæðinu eða stækkunar á húsnæðinu, en fjölmörg atriði sem leggjast gegn því eins og að ofan hefur verið talið. Rekstur vélsmiðju er víkjandi á svæðinu og stækkun hennar gengur þá þvert á markmið og skilmála Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020-2035.