Nýjast á Local Suðurnes

Hissa á svörum skipulagsfulltrúa eftir að tvær keimlíkar umsóknir fengu ólíka afgreiðslu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, segist hissa á svörum skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, Gunnars Ottóssonar, varðandi umsókn um lóðarstækkun við Fitjabraut 3, sem var hafnað á meðan svipuð umsókn vegna lóðar við hliðina var samþykkt.

Forsaga málsins er sú að Margrét telur að tvær keimlíkar umsóknir um lóðarstækkun á sama svæði hafi fengið ólíka afgreiðslu og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við afgreiðslu þessara tveggja umsókna.

Hér má nálgast fyrri umfjöllun Suðurnes.net um málið, en þar koma málsatvik ítarlega fram í bókun Margrétar og svari skipulagsfulltrúa.

Hér má svo sjá bókun Margrétar frá síðasta bæjarstjórarfundi:

„Ég verð að játa það að ég var mjög hissa á svari skipulagsfulltrúa að enginn rökstuðningur fylgdi umsókn um lóðarstækkun Fitjabrautar 3, þar segir skipulagsfulltrúi Gunnar K. Ottósson “þar sem vísað var í áhuga mögulegra eigenda en engin lýsing á rýmisþörf eða áætlun um uppbyggingu fylgdu umsókn”.

Ég er algerlega ósammála skipulagsfulltrúa. Það kemur fram í umsókn um stækkun lóðar að Fitjabraut 3 að óskað er eftir stækkun vegna fyrirhugaðra aukinna umsvifa á lóðinni en Fasteignafélagið Lón ehf. hefur leigt út húsnæði og lóðina undir starfsemi Umbúðamiðlunar ehf. Er þetta ekki rökstuðningar með umsókn um fyrirhugaða lóðarstækkun? Hvað þarf til frá Fasteignafélaginu Lóni til að umsókn þeirra hefði verði tekin gild?

Ef ekki voru nægileg gögn af hverju var þá ekki óskað eftir frekari gögnum? Ég óska eftir skriflegu svari. Enn og aftur vill Umbót árétta að ávallt þarf að gæta jafnræðis, hlutlægni og tryggja að allir sitji við sama borð.“