Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær verðlaunar fólk og fyrirtæki sem gera vel við umhverfið

Verðlaunaafhending fer fram við upphaf Ljósanæturhátíðar

Það hefur viðrað vel til garðverka á undanförnum vikum og margir íbúar bæjarins hafa tekið til hendinni heimavið. En það er engin ástæða til að stoppa þar heldur upplagt að líta í kringum sig og láta umhverfisvitundina ná aðeins lengra út í sitt nánasta umhverfi.

Á næstu vikum mun Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjufræðingur Reykjanesbæjar taka á móti ábendingum frá íbúum um nágranna og fyrirtæki sem eru að gera góða hluti í umhverfismálum. Það er hagur allra íbúa bæjarins að umhverfið sé snyrtilegt og að umhverfisvitundin nái út fyrir lóðarmörkin, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Vinnuskóli Reykjanesbæjar og Hverfisvinir eru þeir aðilar á vegum Reykjanesbæjar sem sinna umhverfismálum, gróðursetningu, snyrtingu og hreinsun. Þrátt fyrir góðan vilja ná þessir aðilar aldrei að sinna öllum Reykjanesbæ og þá er íbúanna að hjálpa til.

Í sumarlok mun Umhverfissvið veita umhverfisviðurkenningar til íbúa og fyrirtækja. Óskað er eftir ábendingum frá íbúum bæjarins um fallega garða, fallega endurbyggingu á gömlum húsum og lóðum hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hægt er að senda ábendingar á netfangið berglind.asgeirsdottir@reykjanesbaer.is eða hringja í Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar í síma 420-3200, milli kl. 08:00 og 16:00.

Verðlaunaafhending fer fram við upphaf Ljósanæturhátíðar svo það er kjörið að nota tækifærið og koma bænum í sitt fínasta púss fyrir hátíðina.