Nýjast á Local Suðurnes

Laufléttur föstudags Árni Árna – Fótbolti, tannhirða og bílastæðasjóður

Þjóðfélagið er alltaf að taka breytingum og stundum fæ ég það á tilfinninguna að fólk velti alltof mikilli ábyrgð á leik- og grunnskóla þegar kemur að uppeldi barna. Nú hefur starfsfólk á leikskóla í Hafnarfirði tekið á það ráð að hamast við tannbusta litlu krílin. Tannheilsa íslenskra barna er víst í molum og ástandið svo slæmt að Stöð 2 þurfti þrjá fréttatíma og að lágmarki 2 beinar útsendingar til að fjalla um málið. Erum við orðin svo löt eða góðu vön að við sjáum það ekki í hendi okkar að aðstoða börnin við að læra tannumhirðu?

local

Árni Árnason

66°norður opnar fljótlega verslun á Strikinu í Kaupmannahöfn. Flott útrás sem ber að fagna, enda traust og gott fyrirtæki. Verðið á vörum þess veldur samt því að hinn sótsvarti almúginn getur ekki fjárfest í þeim. Ég fjallaði á dögunum um verð á íslensku lambakjöti og bjór sem er ódýrara á erlendri grundu og velti fyrir mér verðlagi á vörum 66°norður í Danmörku. Það liggur ekki fyrir og kannaði ég þá verð á vörum Cintamani. Úlpan Eyþór kostar samkvæmt heimasíðu Cintamani 237 evrur í Evrópu sem eru 34.407 kr. en á Íslandi kostar Eyþór 43.990 kr. Munurinn á íslensku úlpunni er því 9.583 kr. sem hún er ódýrari á erlendis. Enn og aftur borga íslendingar meira fyrir íslenska vöru sem oftar en ekki er þó framleidd í Kína.

Skúlptúr var stolið úr Hallgrímskirkju í vikunni. Eftir að hafa séð mynd af þessum grip þá get ég varla sagt að viðkomandi þjófur hafi smekk fyrir góðri list. Soldið brútal verk, hönd með nagla í gegn. Táknrænt á sinn hátt en fengi aldrei að prýða mitt heimili.

Ástríðan í honum Bjarna okkar Ben, ekki slæmt að fá klapp á öxlina fyrir vel unnin störf. Það er ánægjulegt að sjá að hagkerfið siglir í rétta átt svona til tilbreytingar. Það er greinilegt að fjármálaráðherra er heitt í hamsi á mörgum sviðum og hann átti klappið svo sannarlega skilið.

Ef það gerist ekki í Bandaríkjunum hvar þá segi ég nú bara. Lögreglan hefur ákært 17 ára ungling fyrir kynferðislega misnotkun á sjálfum sér. Pilturinn og kærasta hans höfðu sent nektarmyndir sín á milli. Þau eru nógu gömul til að stunda kynlíf en ekki til að birta kynferðislegar myndir. Ég hef ekki heyrt aðra eins vitleysu, með tilkomu snjallsíma og appa er hægt að gera ýmislegt til að halda maka sínum spenntum og það liggur fyrir að engin annar sá þessar myndir af þeim. Þarna er á ferðinni unglingar sem eru ástfangnir og lögreglan hefur ekki ennþá svarað til um hvernig vitað er um myndaskipti parsins. Stúlkan játaði og fékk 12 mánaða skilorð en pilturinn á yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi. Svona virkar frelsið í USA, landi tækifæranna. Ég er handviss um að annar hver unglingur á Íslandi væri á leið á litla hraun ef þessi vitleysis lög væru í gildi hérna.

Það sem kom mér mest á óvart í vikunni er að bílastæðaverðir fara út fyrir 101 Reykjavík. Já það vil svo til að þeir leggja leið sína upp í Breiðholt (á eigin ábyrgð) og hengja sektir á fellihýsi sem stendur þar inn á einkalóð. Er ekki græðgin að fara með Bílastæðasjóð þegar fólk má ekki geyma hjólhýsi og fellihýsi inn á sinni einkalóð ? Vill borginn rukka borgarbúa um fasteignagjöld, lóðaleigu og fyrir að parkera innan við sín eigin lóðamörk ? Er þetta ekki orðið of langt gengið? Á að bjarga borginni frá gjaldþroti með að sekta fólk fyrir að leggja í bílastæðin sín ? Þetta er kannski ein leið Dags borgarstjóra í útrýmingar-æsingnum á fjölskyldbílnum sem virðist vera þyrnir í augum borgarstjórans.

Kennarar í Heiðarskóla í Reykjanesbæ létu börn skólans ekki mæta með blöðrur á setningarhátíð Ljósanætur þetta árið. En fyrir þá sem ekki vita koma saman öll grunnskólabörn bæjarfélagsins og sleppa blöðrum í ýmsum litum til að minna á fjölbreytileikann í samfélaginu. Blöðrurnar innihalda helíum. Kennarar Heiðarskóla segja að þetta fari þvert á umhverfisstefnu skólans. Það er sorglegt fyrir börn skólans að mæta án blaðra og horfa á önnur börn sleppa blöðrum sem lita himininn. Málið rataði í fréttirnar og þar sagði einn viðmælandi að helíum í heiminum væri af skornum skammti og væri til að mynda notað í tæki á sjúkrahúsum. Hann bætti við hvernig við ætlum að segja þessum börnum síðar meir að ekki væri hægt að veita þeim heilbrigðisþjónustu þar sem helíumið fór allt í blöðrurnar. Þetta er einstök sýn á málið, ég vona að miðað við vísindin að þegar fram líða stundir leggist ekki af tækjabúnaður á sjúkrahúsum vegna helíum-leysis. Það er eitthvað annað og umhverfisvænna sem mun leysa það af hólmi. En þá sá ég góða vangaveltu á samfélagsmiðlum, að kennarar skólans hefðu getað sleppt því að keyra til vinnu í nokkra daga til að vinna upp á móti menguninni og þá hefði börnin verið þátttakendur í setningarhátíðinni. Ég vona að bæjaryfirvöld leggi ekki niður þessa táknrænu hefð fjölbreytileikans á Ljósanótt.

En það besta í þessari viku er án efa sigur íslenska landsliðsins á Hollandi í gærkvöldi. Ég meira segja horfði þrátt fyrir að hafa ekki hundsvit á fótbolta. Strákarnir okkar eru einfaldlega frábærir og ekki annað hægt en að springa úr stolti. Ég fékk gæsahúð þegar flautað var til leiksloka. Til hamingju strákar þið eruð bestir.

Góða helgi.