Fjórir milljarðar króna frá lífeyrissjóðum í kísilmálmverksmiðju Thorsil
Fjórir stórir lífeyrissjóðir munu fjárfesta í kísilmálmsverksmiðju Thorsil, sem til stendur að reisa í Helguvík. Um er að ræða Lífeyrissjóð verslunarmanna, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR), Almenna lífeyrissjóðinn og Frjálsa lífeyrissjóðinn. Lífeyrissjóðirnir munu leggja til tæplega fjóra milljarða króna til verkefnisins.
Eigendur Thorsil, bandarískur fjárfestir, Equity Asset Group, og íslenskir fjárfestar hafa skuldbundið sig fyrir því hlutafé sem upp á vantar og búið er að ganga frá lánasamningum við Arion banka, Íslandsbanka og einn erlendan banka.
Ljúka átti samningum við umrædda aðila fyrir lok októbermánaðar, en vegna afturköllunar á starfsleyfi fyrirtækisins mun þessi fjármögnun tefjast. Samkvæmt heimildum DV.is munu samningar við lífeyrissjóðina fjóra þó vera langt á veg komnir.
„Við þurfum augljóslega að fara aftur í gegnum þetta ferli og leyfið auglýst aftur. Við gerum okkur vonir um að þegar að það liggur fyrir þá taki stuttan tíma að klára fjármögnunina,“ segir Hákon Björnsson, forstjóri Thorsil og hluthafi í verkefninu, í samtali við DV.