Nýjast á Local Suðurnes

Þefaði þjófana uppi – Lét þá heyra það og endurheimti þýfið

Brotist var inn í Toyota-bifreið fyrir utan hótel í Keflavík á dögunum og forláta úlpu frá 66° Norður stolið. Það þótti eigandanum, ungri stúlku miður, eins og gefur að skilja – enda er virði slíkrar úlpu í kringum 100 þúsund krónur.

„Við tilkynntum þetta á Facebook – að brotist hefði verið inn í bílinn og úlpunni stolið.“ segir faðir stúlkunnar í viðtali við afþreyingarmiðilinn menn.is. „Í kjölfarið sendi vinur minn mér skjáskot af alveg eins úlpu – sem var auglýst á Facebook-síðu hér á Suðurnesjum. Ég sendi seljandanum skilaboð og sagðist vera tilbúinn að kaupa hana.”

„Konan lét mig þá þefa af ilmvatninu sem dóttir mín notar – svo ég gæti notað það til frekar staðfestingar á því að þetta væri rétt úlpa.“

Eftir að fjölskyldufaðirinn hafði náð samkomulagi við þjófana um verð og afhendingarstað var lagt af stað, með þefskynið að vopni, til að hafa uppi á þjófunum, sem hann og gerði. Ilmvatnslyktin passaði við þá sem stúlkan notar og fjölskyldufaðirinn endurheimti þýfið.

“Í bræði minni reif ég aðeins í piltinn og lét hann heyra það hvers lags mannleysa hann væri. Svo tók ég úlpuna, fór út úr íbúðinni og bombaði hurðinni þannig aftur, að ég get alveg ímyndað mér að hún hafi laskast við höggið.” Sagði fjölskyldufaðirinn.

Stúlkan sem var alveg miður sín þegar úlpunni var rænt, tók gleði sína á ný þegar hann sneri aftur með hana.

„Hún var glöð með pabba gamla þegar ég sneri aftur með úlpuna.“

Það má því segja að þjófarnir hafi herinlega verið þefaðir uppi – í fyllstu merkingu þess orðs. Nánar má lesa um málið á vef menn.is.