Nýjast á Local Suðurnes

Fékk 8,7 milljónir króna vegna skýrslugerðar – Ferðakostnaðurinn rúm milljón

Ragnheiður Elín fyrir miðju. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Suðurnesjakonan Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fékk 8,7 milljónir króna fyrir að vinna skýrslu um stefnu norrænna stjórnvalda í ferðamálum. Heildarkostnaður við skýrsluna var um 12,2 milljónir.

Ragnheiður Elín var á ferð og flugi við gerð skýrslunnar, en ferðakostnaður vegna vinnu við skýrsluna nam 1,3 milljónum en þar af námu fargjöld 587 þúsundum, dagpeningar 172 þúsundum, dvalarkostnaður 417 þúsundum, keyptar máltíðir 59 þúsundum og útgjöld vegna leigubifreiða 71 þúsund krónum. Þá var tæplega 1,2 milljónum varið í ljósmyndir, hönnun og þýðingarvinnu.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu og þar segir að helsta niðurstaða skýrslunnar sé sú að Norðurlönd hafi til mikils að vinna með samstarfi í ferðamálum. Meðal annars gæti borgað sig að eiga samstarf á sviði nýsköpunar, stafrænnar þróunar og markaðsmála. Efni skýrslunnar var ætlað að nýtast í vinnu að norrænni ferðamálaáætlun sem kynnt var í júlí.