Nýjast á Local Suðurnes

Methagnaður hjá leigurisa – Undirbúa skráningu á markað

Leigutekjur Heimavalla námu um 1.495 milljónum árið 2016, en fyrirtækið á meðal annars um 800 íbúðir á Suðurnesjum eftir að hafa sameinast leigufélaginu Ásabyggð á Ásbrú og keypt upp eignir Tjarnaverks á Suðurnesjum. Félagið hefur því stækkað gríðarlega á liðnu ári, en árið 2015 námu leigutekjurnar aðeins 512 milljónum króna.

Viðskiptablaðið greinir frá því að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var alls um 655 milljónir árið 2016, samanborið við 119 milljónir árið 2015. Hagnaður Heimavalla nam þá alls 2.217 milljónum króna, samanborið við 63 milljónir árið 2015.

Heimavellir hafa undanfarna mánuði verið orðaðir við skráningu í Kauphöll Íslands, eftir því sem Viðskiptablaðið greinir frá, en samkvæmt tilkynningu Heimavalla er félagið að undirbúa sig fyrir skráningu sem fyrirhuguð er á síðasta ársfjórðungi þessa árs.

Leigufélagið hækkaði leigu á Ásbrú fljótlega eftir sameiningu við leigufélagið á Ásbrú, eins og greint var frá á Suðurnes.net undir lok síðasta árs.