Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar bera ekki fjárhagslegan skaða af meiðslum Bonneau

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur tilkynnti á dögunum að Stefan Bonneau myndi ekki leika með liðinu í vetur eftir að hafa slasast illa á fæti. Mikil umræða skapaðist í kjölfarið á samfélagsmiðlum þar sem frétt þess efnis kom uppá yfirborðið að Bonneau hafði í ágúst spilað í Pro Am deild í Bandaríkjunum þar sem hann hafi ekki getað spilað tvo leiki þar sem hann hafi meiðst á ökkla og verið borin af velli.

Gunnar Örn Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, segir í samtali við Vísi.is að „Þetta mál er í skoðun okkar megin. Eina sem ég hef fengið er blaðagrein að utan þar sem segir að hann hafi slasast í leik í sumar“

„Við erum með lögmann okkar í að kanna hvort þetta sé rétt. Okkar lögmaður er að hafa samband við mótshaldarana úti til að fá staðfestingu á hvað gerðist.“

„Ef það kemur í ljós að hann hafi komið meiddur er það alvarlegt brot á samningi. En ég þekki Stefan bara af góðu einu. Hann fer bara eftir ráðleggingum síns umboðsmanns,“ segir Gunnar.

Gunnar segir Njarðvíkinga ekki bera fjárhagslegan skaða af meiðsum Bonneau, enda hafi hann meiðst áður en samningurinn við Njarðvík hafi tekið gildi.

„Hann meiðist áður en samningurinn tekur gildi,“ segir Gunnar,  „Það er í mesta lagi sjálfsábyrgðin af tryggingunni og einhverjir flugmiðar. Þetta er enginn skaði fyrir okkar félag nema það, að Bonneau getur ekki spilað með okkur. Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur er skuldlaus. Deildin er vel rekin og við erum stolt af því.“