Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til að boðið verði upp á ókeypis tíðarvörur í grunnskólum

Mynd: Facebook- Ozzo

Ungmennaráð Reykjanesbæjar kynnti á fundi með bæjarstjórn 1. nóvember síðastliðinn áhugaverða hugmynd um að komið verði til móts við leghafa í grunnskólum sveitarfélagsins með aðgangi að ókeypis tíðarvörum á salernum skólanna líkt og gert er í félagsmiðstöðinni Fjörheimum.

Ungmennaráð leggur til að einhvers konar geymsla fyrir tíðarvörur verði á að minnsta kosti einu salerni í hverjum grunnskóla í Reykjanesbæ. Þangað geti nemendur sótt slíkar vörur þegar þeir þurfa á þeim að halda. Þetta geti aukið vellíðan og sjálfsöryggi nemenda sem ekki vilja deila því að þeir hafi þörf fyrir tíðarvörur.

Fræðsluráð fagnar áhugaverðri hugmynd frá ungmennaráði og tekur undir það sjónarmið að með þessum hætti geti grunnskólar Reykjanesbæjar stuðlað að auknu jafnrétti og aukið vellíðan leghafa sem stunda nám við grunnskóla sveitarfélagsins. Reykjanesbær fylgir þannig fordæmi annarra sveitarfélaga og ríkisins þar sem viðlíka fyrirkomulag hefur verið tekið upp í grunnskólum og framhaldsskólum. Verkefnið fellur einnig vel að vinnu síðastliðinna tveggja ára við að gera Reykjanesbæ að barnvænu samfélagi með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að meta kostnað við það að boðið verði upp á ókeypis tíðarvörur á að minnsta kosti einu salerni í hverjum grunnskóla Reykjanesbæjar. Samhliða kostnaðarmati verði í samstarfi við skólastjórnendur unnið að tillögum að útfærslu í hverjum skóla fyrir sig, segir í fundargerð fræðsluráðs.