Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær skoðar staðsetningar undir frisbígolfvöll

Frisbígolf eða Folf, nýtur sífellt meiri vinsælda á meðal landsmanna og eru íbúar Suðurnesja engin undantekning þar á. Undanfarin ár hefur fjöldi frisbígolfvalla verið teknir í gagnið um allt land, meðal annars í Reykjavík, Hafnarfirði, á Flúðum og við Apavatn.

Þó ekki sé hægt að nota hvaða frisbídisk sem er í frisbígolfi er kostnaður fyrir byrjendur frekar lítill en diskur sem hentar fyrir þessa íþrótt kostar um 2.000 krónur. Til er ótrúlegt úrval ólíkra diska með mismunandi eiginleika en sérstakir diskar eru til fyrir löng, meðallöng og stutt köst, þannig að ráðlegt er að byrja með 3-4 diska.

gudlaugur helgi sigurjonsson

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson

Vinsælustu vellir landsins eru gríðarlega mikið sóttir en á bestu dögunum eru spilarar á hverjum teig og þúsundir að spila á hverjum degi, segir í tilkynningu frá Folfsambandi Íslands. Enginn Folfvöllur er þó á Suðurnesjum enn sem komið er, en samkvæmt Folfsambandinu er kostnaður við uppsetningu á velli um ein og hálf milljón króna.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sagðst í spjalli við Local Suðurnes finna fyrir auknum áhuga á íþróttinni og að verið væri að skoða málið innan sviðsins:

 “Já við höfum fundið fyrir auknum áhuga á svona garði og höfum verið að skoða áhugaverðar staðsetningar og erum komin með 2-3 hugmyndir.”

“Þetta þarf ekki að vera dýr framkvæmd og munum að sjálfsögðu skoða þetta með jákvæðu hugarfari,” Sagði Guðlaugur Helgi

Um möguleikann á að folfvöllur verði tekinn í notkun í Reykjanesbæ næsta sumar sagði Guðlaugur að Umhvefis- og skipulagsvið myndi sækjast eftir því við gerð næstu fjárhagsáætlunar.