Leikskólabörn setja upp sýningu – Fólkið í bænum “við erum allskonar”

Börnin á leikskólanum Holti í Innri-Njarðvík hafa verið dugleg við að fegra nærumhverfi leikskólans undanfarin ár, en þau hafa meðal annars raðað stígvélum á varnargarðinn meðfram sjónum í svokallaðan Stígvélagarð, fólki sem þar fer um til mikillar ánægju. Þá hafa börnin í samstarfi við nemendur Akurskóla fegrað og sett upp flotta aðstöðu í Narfakotsseylu.
Börnin á Holti hafa einnig verið duglegir þátttakendur á Ljósanótt undanfarin ár, gert sér glaðan dag og haldið sýningar í tengslum við hátíðina. Í ár verður engin undantekning þar á, krakkarnir hafa sett upp sýninguna Fólkið í bænum “Við erum allskonar” sem unnin er úr skapandi efnivið og eiga verkin að endurspegla fjölbreytileika fólksins í bænum.
Setning sýningarinnar Fólkið í bænum “við erum allskonar” verður í Stígvélagarðinum fimmtudaginn 1.september kl. 15:00 og er öllum velkomið að skoða það sem börnin á Holti leggja af mörkum til Ljósanætur.