Nýjast á Local Suðurnes

Útboð á endurskoðun sparar Reykjanesbæ um 20 milljónir króna

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti í morgun að taka tilboði Grant Thornton endurskoðunar ehf. í endurskoðun fyrir Reykjanesbæ, Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar á grundvelli niðurstöðu örútboðs.

Ríkiskaup framkvæmdi útboðið fyrir Reykjanesbæ sem gerði kröfu um að sá endurskoðandi sem stjórnaði verkinu myndi falla í A- flokk samkvæmt Rammasamningi ríkisins og krafist var reynslu af sambærilegum verkefnum. Grant Thornton var með lægsta tilboðið af þeim fyrirtækjum sem sendu inn tilboð og stóðust kröfulýsingu. Stefnt er að undirskrift samnings að loknum 10 daga biðtíma. Alls sex fyrirtæki buðu í verkið.

Fjárhagslegur ávinningur örútboðs á endurskoðun fyrir Reykjanesbæ, Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar nemur tæplega 20 milljónum króna, að sögn Jóns Inga Benediktssonar innkaupastjóra Reykjanesbæjar.