Nýjast á Local Suðurnes

Tilboð Kosmos & Kaos í vef Reykjanesbæjar var 80% yfir kostnaðaráætlun

Guðmundur Bjarni Sigurðsson eigandi Kosmos & Kaos gagnrýnir vinnubrögð og ákvörðun Reykjanesbæjar varðandi hönnun nýs upplýsingavefjar í pistli á Facebook-síðu sinni þann 28. maí sl. Í greininni, sem ber heitið, „Eitthvað annað – áburðarverksmiðja nei takk“ segir Guðmundur:

„Við vitum hver staða Reykjanesbæjar er og hún gefur fullt tilefni til hagkvæmni í rekstri. Veflausnir eru hluti af þeirri hagkvæmni. Verkkaupi leggur út dágóða fjárhæð fyrir verkinu en ef vel er að verki staði hlýst ákveðin rekstrarleg hagkvæmni af góðum lausnum. Og hvað sparast með þeim gjörningi að flytja veflausnirnar til Eyjafjarðar? Ef litið er á stóra samhengið þarf að muna ansi miklu á tilboðum til að það borgi sig að færa þessi viðskipti úr heimabyggð.“

Reykjanesbær hefur birt tilkynningu á vef sínum vegna greinar Gumundar sem finna má í heild inni hér fyrir neðan, en þar kemur meðal annars fram að tilboð Kosmos & Kaos hafi verið um 80% yfir kostnaðaráætlun verkkaupa.

Fyrr á þessu ári gerði Reykjanesbæjar verðkönnun hjá sex hugbúnaðarfyrirtækjum, fimm tóku þátt. Það voru Advania, Dacoda, Hugsmiðjan, Kosmos & Kaos og Stefna hugbúnaðarhús. Eftir vandlega skoðun og ígrundun var ákveðið að ganga til samstarfs við Stefnu. Tilboð Stefnu hugbúnaðarhúss var lægst, næstlægsta tilboð átti Dacoda, þriðja lægsta tilboð átti Hugsmiðjan, fjórða lægsta tilboðið átti Kosmos & Kaos og fimmta lægsta tilboð átti Advania. Þar sem nokkrir aðilar óskuðu trúnaðar á tilboðum sínum, þá eru verð ekki uppgefin, enda var óskað eftir trúnaði í útboðsgögnum og má færa rök fyrir því að það gangi í báðar áttir.

Fyrirtækið Sjá ehf. sá um óháða ráðgjöf varðandi kröfulýsingu/útboðslýsingu ásamt því að sjá um útboðið sjálft og samskipti við bjóðendur. Á heimasíðu þess; www.sja.is, segir m.a.; „Fyrirtækið hefur verið leiðandi á sviði rannsókna og úttekta á notendahegðun og aðgengismálum á vefnum og er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Sjá hefur sérhæft sig í að prófa vefi og viðmót með notendum í því skyni að kasta ljósi á notendavandamál svo fyrirtæki geti betur bætt úr þeim.“

Við mat við val á samstarfsaðila segir í útboðsgögnum:

2.3  Mat við val á samstarfsaðila
Við mat á bjóðanda er eftirfarandi lagt til grundvallar, athugið að röð atriða endurspeglar ekki vægi við mat:

1.    Þjónusta bjóðanda
2.    Verð
3.    Starfsmenn sem koma að verkinu og reynsla þeirra
4.    Verk- og tímaáætlun bjóðanda
5.    Leyfis og uppfærslumál bjóðanda
6.    Viðmót kerfis; bakendi og framendi.
7.    Fjöldi vefsíðna í kerfinu á Íslandi
8.    Fjöldi nýrra notenda sl. 2 ár

Áskilin er réttur til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.“

Mat umsjónaraðila verðkönnunarinnar þ.e. Sjá ehf., var það að allir aðilar gætu framkvæmt verkið, en jafnframt var lægstbjóðandi sterkur á fleiri sviðum en verðinu s.s. þjónustu, verk- og tímaáætlun, viðmóti, fjölda vefja/nýrra notanda og því var niðurstaðan að lægstbjóðandi var valinn.

Tvö lægstu tilboðin voru í samræmi við kostnaðaráætlun, en önnur mun hærri og má í því sambandi nefna að tilboð Kosmos & Kaos var rúmlega 80% yfir kostnaðaráætlun.

Pistill Guðmundar Bjarna á Facebook í heild sinni: