Nýjast á Local Suðurnes

Mögulegt að allar eignir Heimavalla verði seldar – Tímafrekast að selja á Suðurnesjum

Gert er ráð fyrir því að íbúðaleigufélagið Heimavellir verði leyst upp og eignir þess seldar í skömmtum ef hluthafar félagsins samþykkja að taka það af hlutabréfamarkaði. Þetta herma heimildir Markaðarins.

Fram kom í máli fulltrúa verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance á fundi með hluthöfum Heimavalla að það gæti tekið þrjú til fjögur ár að selja allar eignir leigufélagsins, sem eru um 1.900 talsins, til þess að mögulegt yrði að slíta félaginu. Tímafrekast er talið að það yrði að selja íbúðir félagsins á Suðurnesjum en þær voru um 840 talsins í lok september í fyrra.

Heimavellir seldu árið 2016 210 íbúðir fyrir um sex milljarða króna og tilkynntu á dögunum um sölu á 154 íbúðum til viðbótar á Ásbrú, íbúðirnar sem nú fara í söluferli eru að meðaltali 155 fermetrar að stærð en af íbúðunum 154 eru 32 stúdíóíbúðir sem eru um 40 fermetrar hver. Nánar má fræðast um söluferlið á íbúðunum hér.

Suðurnes.net hefur nokkrum sinnum fjallað um fyrirtækið frá því að það keypti rúmlega 700 íbúðir af leigufélagi í eigu Kadeco, Ásabyggð, á fermetraverði sem var á pari við verð á fermetra í blokkaríbúð í Síberíu. Þá vakti töluverða athygli að félagið hækkaði leigu á Ásbrú töluvert um leið og kaupin á Ásabyggð voru gengin í gegn.