Forstjóri Norðuráls bjartsýnn á að álver rísi í Helguvík

Uppbygging Norðuráls á álveri í Helguvík hefur lengi verið til umræðu en fyrsta skóflustunga fyrir álverinu var tekin árið 2008. Óljóst er hins vegar hvenær það mun rísa þar sem deilur eru um gildandi orkusölusamning á milli Norðuráls og HS Orku.
Spurður að því hvenær álver muni rísa við Helguvík segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, að niðurstöðu úr gerðardómsmeðferð í máli fyrirtækjanna tveggja sé að vænta á næsta ári. Hann segist bjartsýnn á að álverið verði reist og að fjárfestingin verði arðbær. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.
“Við sjáum sömuleiðis að ef við horfum á afkomuna í orkugeiranum þá er hún mjög góð. Ég ræddi það einmitt á ársfundi Samáls að þarna væri verið að skila tugum milljarða á ári til íslensks samfélags. Þar virðist dæmið líka hafa gengið upp. Er hægt að endurtaka dæmið í Helguvík? Já, ég held það og ég held að það gæti gengið upp fyrir alla aðila. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig úr því vinnst.“ Segir forstjóri Norðuráls við Viðskiptablaðið.