Nýjast á Local Suðurnes

Óþekktu milljarðamæringarnir skoða fjárfestingamöguleika á Ásbrú

Rekstrarhagfræðingarnir og viðskiptafélagarnir Arnar Þórisson og Þórir Kjartansson, eigendur fasteignafélagsins Íslenskar fasteignir ehf., skoða fjárfestingamöguleika á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þó ekki hafi borið mikið á þeim Arnari og Þóri, sem stundum eru kallaðir “Óþekktu milljarðamæringarnir”, þá hafa félagarnir komið víða við í atvinnulífinu undanfarin ár, en þeir eiga meðal annars elliheimili, hótel, starfsmannaleigu og stóra alþjóðlega ferðaskrifstofu.

Ferðaskrifstofan Kilroy, hefur samkvæmt ársskýrslum, sem birtar eru á heimasíðu fyrirtækisins velt um 30 milljörðum íslenskra króna á ári undanfarin ár og skilað um 700 milljóna króna hagnaði á ári.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net hafa viðræður á milli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco og Íslenskra fasteigna ehf. staðið yfir, með hléum, frá því seint á síðasta ári. Í svari við fyrirspurn sagði fulltrúi Íslenskra fasteigna ehf. að verið væri að skoða möguleikana á Ásbrú, en vildi ekki gefa upp hvaða fjárfestingar væru í skoðun, né stærðargráðu verkefnisins. Eitt af fyrirtækjum þeirra Arnars og Þóris heitir Íslenska heilbrigðisþjónustan ehf., sem bendir til þess að þeir ætli að hasla sér völl í heilbrigðisgeiranum.

Þá á eignarhaldsfélag þeirra félaga, Íslensk fjárfesting ehf., meðal annars Reykjavik Residence Hotel, við Hverfisgötu, sem hefur fengið afar góða dóma á ferðavefsíðum eins og Booking.com, TripAdvicor.com og Expedia.com