Nýjast á Local Suðurnes

Læsissáttmáli undirritaður í Grindavík

Aðild Grindavíkur að þjóðarsáttmála um læsi var staðfest með undirritun samnings sl. þriðjudag. Við athöfnina komu fram nemendur úr Tónlistarskóla Grindavíkur, þær Aníta Ólöf Þorláksdóttir, Aníta Ósk Arnardóttir, Bríet María Ómarsdóttir, Eydís Steinþórsdóttir, Olivia Ruth Mazowiecka, fiðlunemendur og Telma Sif Reynisdóttir, þverflautunemandi.

Menntamálaráðherra lagði út frá tónlist og tónlistarmenntun í ræðu sinni og talaði um að við það að fara í gegn um tónlistarnám lærði maður grunninn að því að vera skapandi listamaður og til að svo geti orðið þurfi maður að ná ákveðinni færni á hljóðfærið. Hljóðfæranámið þarf að undirbyggja með því að ná tónstigum og tækniæfingum ekki bara til þess að ná tökum á tækni heldur sem grunn að hinu skapandi.

Menntamálaráðherra talaði einnig um að 27% brottfall úr framhaldsskólum rímaði við þau 30% sem ekki geta lesið sér til gagns. Námsframvinda er frá því að  nemendur hefja nám og þar til þeir ljúka námi. Hann talaði einnig um að ekkert ríkja OECD hefði jafn slaka námsframvindu og framhaldsskólanemendur okkar en 45% framhaldsskólanemenda ljúka námi á réttum tíma.  Meðalaldur þeirra sem ljúka BA/BS gráðu er 30,6 ár sem þýðir að íslendingar eru skemur á vinnumarkaði með fulla menntun en í öðrum löndum og um 20% minni framleiðni er hjá okkur en í öðrum OECD löndum.