Nýjast á Local Suðurnes

Spyrja út í launakjör bæjarstjóra – Yfir 30% hækkun og meiri hlunnindi

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar - Mynd: Skjáskot RÚV

Helga Jóhanna Oddsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, lagði fram bókun varðandi laun bæjarstjóra á fundi ráðsins í gær, en þar kemur fram að náist samkomulag um kaup og kjör muni laun bæjarstjóra hafa hækkað um 31,4% frá því hann tók til starfa.

Þá spyr bæjarfulltrúinn út í ýmis hlunnindi, eins og slysa- og líftryggingu, sem mun verða hluti af launakjörum bæjarstjóra auk þess sem varpað er fram spurningum um biðlaun.

Bókun Helgu Jóhönnu má sjá í heild hér fyrir neðan:

„Ráðningarsamningur bæjarstjóra

Varðandi ráðningarsamning bæjarstjóra leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram eftirfarandi bókun og ósk um svör við þeim spurningum sem í henni felast.

Liður 1-2 í ráðningarsamningi sýnir 31,4% hækkun á launum bæjarstjóra frá upphafi síðasta kjörtímabils. Laun bæjarstjóra í ráðningarsamningi þann 13.6.2018 námu kr. 1.850.000 en verða nú kr. 2.431.546. Hvernig hefur þessi hækkun átt sér stað á sl. fjórum árum?

Í síðustu kjarasamningum hefur áherslan verið á að hækka lægstu laun, sem þýðir að prósentuhækkun lægstu launa hefur verið meiri en áður. Þessu fylgdi sérstök beiðni um að laun hærra launaðra yrðu ekki látin hækka umfram eðlilegar hækkanir. Tenging launa bæjarstjóra við meðaltalshækkun launa starfsmanna sveitarfélaga þýðir, að bæjarstjóri hefur verið að njóta átaksins í hækkun lægstu launa þvert á markmið þess og óskir vinnumarkaðar, sem er með öllu ótækt.

Hvaða aðrar greiðslur, „sem greiddar eru af öðrum“ þiggur bæjarstjóri sbr. lið 2? Óskað er eftir tæmandi lista og upplýsingum um heildarlaun bæjarstjóra að öllum þeim greiðslum meðtöldum.

Athygli vekur að önnur kjör bæjarstjóra skulu tengd við kjarasamning Starfsmannafélags Suðurnesja en þó er nýr liður í samningi bæjarstjóra sem kveður á um slysa-, veikinda- og líftryggingu. Hverjir aðrir í starfsmannahópi Reykjanesbæjar njóta slíkra fríðinda og hverjar eru fjárhæðirnar umfram það sem fylgir kjarasamningi SFS?

Hver hefur hækkun almennra starfsmanna Reykjanesbæjar sem einnig njóta kjara skv. SFS verið á kjörtímabilinu?

Dagsetningar ráðningarsamnings eru óljósar og ætti að vera einfalt að lagfæra þannig að gildistími sé t.d. til 31.5.2026.

Skýra þarf betur ákvæðið „Bæjarstjóri á rétt á að fá greidd full laun skv. fyrsta lið í 6 mánuði frá starfslokum, hvort sem er á kjörtímabilinu eða að samningstíma loknum“. Þýðir þetta að bæjarstjóri geti sagt upp störfum og ráðið sig í annað launað starf á kjörtímabilinu en engu að síður notið 6 mánaða launa frá Reykjanesbæ eftir að hann lætur af starfi bæjarstjóra?

Við gerum ekki athugasemdir við biðlaunaákvæðið sem felst í því að bæjarstjóri njóti 6 mánaða launa eftir að samningstíma lýkur og þar til hann ræður sig í annað starf, gerist það innan þess tíma.“