Nýjast á Local Suðurnes

Fjáröflunartónleikar Hollvina Unu í Útskálakirkju í kvöld

Í kvöld fara fram fjáröflunartónleikar Hollvina Unu, tónleikarnir verða haldnir í Útskálakirkju og hefjast kl. 20:00. Á tónleikunum koma fram góðir listamenn og aðgangseyrir rennur óskiptur til starfseminnar í Sjólyst.

Þeir tónlistarmenn sem fram koma eru Ragnheiður Gröndal, Gunnar Kvaran sellóleikari ásamt undirleikara, Sísí Ástþórsdóttir þátttakandi úr Voice Iceland og þá munu Júlíus og Tryggvi spila nokkur lög. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona mun lesa minningar Unu um leiklist í Garðinum.

Miðasala fer fram við innganginn og er miðaverðið 2.500 krónur. Ágóðinn af tónleikunum rennur óskiptur til starfsemi í Sjólyst.

Hollvinasamtök Unu vilja halda minningu hennar á lofti. Það er meðal annars gert með því að safna heimildum og setja upp heimili í húsinu Sjólyst sem líkist því sem var. Hollvinir vinna að ýmsu til eflingar verkefninu. Húsið er opið á tilteknum tímum og fyrir hópa og haldnar hafa verið sagnasamkomur.

Með verkefninu í heild verður jafnframt til efni og skráning atburða sem styðja við sögu um mannlíf í Garðinum.