Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar klárir í Útsvarið – Æfa af kappi fyrir átökin

Útsvarlið Grindavíkur veturinn 2016-2017 kom saman til æfinga í gærkvöldi en fyrsta viðureign liðsins verður föstudaginn 4. nóvember þar sem lið Borgarbyggðar verður andstæðingurinn. Það er valinn maður í hverju rúmi í liðinu í ár en fjölmargar ábendingar um frambærilega keppendur bárust í ár. Liðið í ár skipa:

Agnar Steinarsson – Agnar er þekkt stærð í Útsvarinu en hann var í meistaraliði Grindavíkur 2012 og er hokinn af reynslu og þungavigtarmaður í faginu. Agnar er líffræðingur að mennt og starfar hjá Hafró hér í Grindavík

Andrea Ævarsdóttir – Andrea Ævarsdóttir – Andrea er annar af nýliðunum í hópnum í ár en þó enginn nýliði þegar kemur að fróðleik, enda safnstjóri Bókasafns Grindavíkur og maður kemur sannarlega ekki að tómum kofunum hjá henni þegar kemur að spurningaleikjum. Andrea er bóksafns- og upplýsingafræðingur.

Eggert Sólberg Jónsson – Það verður mikil pressa á Eggerti í fyrstu viðureigninni en Eggert er fæddur og uppalinn í Borgarnesi og mun því væntanlega leggja allt kapp á að klekkja á sínum gömlu sveitungum. Eggert er verkefnastjóri Reykjanes Geopark en hann er þjóðfræðingur að mennt sem sumir segja að sé hinn fullkomni undirbúningur fyrir Útsvarið.

Símavinurinn í ár er heldur ekkert blávatn í bransanum en það er sjálfur Útsvarsmeistarinn Daníel Pálmason.