Nýjast á Local Suðurnes

Óafsakanlegt hversu langan tíma tók að koma á rafmagni

HS veitur hafa sent frá sér tilkynningu vegna rafmagnsleysis í Grindavík sem stóð yfir í tæpar 10 klst hjá sumum íbúum sl. föstudag.

Í tilkynningunni eru orsök rafmagnsleysisins útskýrð auk þess sem farið er yfir ástæður þess hvers vegna viðgerð tók svo langan tíma. Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan, en þar kemur meðal annars fram að óafsakanlegt sé hversu langan tíma tók að koma á rafmagni. 

Rafmagnsleysi í Grindavík 5. mars 2021
 

Bilunarinnar varð vart þegar spennir 2 í tengivirkinu í Svartsengi leysir út um kl. 13:40. Hófst þá leit að orsökum bilunarinnar, í upphafi hjá HS Orku og Landsneti og síðan einnig HS Veitum. Um kl. 15:30 eru allir orðnir sannfærðir um að ekki sé um bilun að ræða í orkuverinu og spennir 2 þá spennusettur að nýju en þá hófst skoðun á því hvort strengurinn milli Svartsengis og aðveitustöðvar í Grindavík (GRI-A) væri bilaður eða einhver búnaður þar. Mæla þurfti strenginn frá báðum endum og gera ýmsar aðrar athuganir því ef spennu hefði verið hleypt á bilaðan strenginn hefði orðið útsláttur í orkuverinu. Þessum athugunum var lokið um kl. 18:00 og var þá strengurinn spennusettur og gekk það vel. Næst var að hleypa straum á vesturhluta bæjarins og gekk það einnig vel.

Um svipað leiti kemur í ljós að rofi í annarri aðveitustöð í Grindavík (GRI-C) hafði slegið út en vegna bilunar í tveggja ára gömlum búnaði skiluðu upplýsingar um það sér ekki inn í skjámyndakerfi HS Veitna. Um kl. 18:50 er reynt að slá inn austurhluta bæjarins en það leiðir til þess að aftur slær út í Svartsengi og allt rafmagn fer af bænum en 10 mínútum síðar var rafmagn aftur komið á austurhluta bæjarins. Hófst þá leit að biluninni með því að mæla upp strengi milli spennistöðva og fara í þær allar til sjónskoðunar og 20:40 kemur í ljós að bilunin er í dreifistöð 118 við höfnina sem þjónar lifrarbræðslu og íþróttahúsi. Var þá strax hafist handa við að aftengja stöðina og nýta möguleika til hringtenginga þannig að rafmagn kæmist á hjá öðrum notendum en þeim sem tengdust dreifistöð 118.

Þessu fylgir nokkur vinna því breyta þarf tengingum í nokkrum dreifistöðvum og götukössum en kl. 21:10 er straumi hleypt á og þá tilkynnt að öll Grindavík nema áðurnefndir viðskiptavinir hafi fengið rafmagn. Skömmu seinna (2 – 3 mín.) kemur í ljós að „sprenging“ hafði orðið á lágspennuhlið í dreifistöð 121 í Hópskerfi og þar væri enn rafmagnslaust. Hófst þá vinna í stöðinni og var hverfið allt spennusett að nýju 22:10 nema Hópsskóli. Ekki er ljóst hvað olli þessari bilun í stöð 121 en ástæðan gæti verið keyrsla varafls í Hópsskóla en það þarf að skoða betur. Þegar rafmagn var þarna komið á nánast allan bæinn hófst viðgerð í þessum tveimur stöðvum og lauk vinnu þar um kl. 04:20 þannig að þá var allur bærinn aftur kominn með rafmagn.

Þegar litið er til baka og atburðarásin skoðuð virðist ljóst að tvö atriði ollu því hvað viðgerð tók langan tíma en það er annarsvegar að varnarbúnaður skuli slá út spenni í Svartsengi sem hann átti ekki að gera og svo að ekki skyldi sjást í skjámyndakerfi HS Veitna að rofi í aðveitustöð GRI-C hefði slegið út eins og hann átti að gera í bilun sem þessari. Þessi röngu skilaboð leiddu bilanaleitina á alrangar slóðir sem síðan tók mikinn tíma að finna út úr áður en unnt var að ráðast að rótum vandans.

Hefðu þessi röngu skilaboð ekki komið til sögunnar hefði bara austurhluti Grindavíkur orðið rafmagnslaus og viðgerð þá væntanlega tekið 2 – 3 klukkustundir. HS Veitur hafa þegar gert við búnaðinn sem ekki var að vinna rétt í GRI-C og þá hefur verið fundað með Landsneti og HS Orku varðandi stillingar á varnarbúnaði í tengivirkinu í Svartsengi og þess vænst að það verði lagað mjög fljótlega.

HS Veitur harma mjög þau óþægindi sem Grindvíkingar urðu fyrir vegna þessa rafmagnsleysis en lengd þess er í raun óafsakanleg. HS Veitur munu gera allt sem er í valdi fyrirtækisins til að koma í veg fyrir að viðlíka viðburðir geti endurtekið sig, það tók á á föstudaginn að vera með bæinn rafmagnslausan á sama tíma og jörðin skalf, sannarlega var ekki á það bætandi.
Við vonum að Grindvíkingar þurfi ekki að upplifa slíkt rafmagnsleysi aftur og að náttúruhamförunum fari að linna þannig að mannlíf í Grindavík og svæðinu öllu fari að færast í eðlilegt horf.

 

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna
Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna