Nýjast á Local Suðurnes

Þetta þarf að hafa í huga rofni þjónusta veitufyrirtækja vegna náttúruhamfara

HS Veitur hafa birt ábendingar vegna mögulegs langtíma þjónusturofs veitukerfa vegna náttúruhamfara á heimasíðu sinni. Þar kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að búnaður í heild sinni noti ekki meira en 2.500 W (2,5 kW.).

Hér fyrir neðan má sjá ábendingar varðandi orkusparnað, en mun ítarlegri upplýsingar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Þessar ábendingar miðast við að spara orku ef til þess kemur að hitaveita verði ekki í boði og nýta þurfi rafmagn til húshitunar eins og lýst er hér að framan. Hafa ber í huga að við þessar aðstæður er ólíklegt að hægt sé að halda fullum hita á híbýlum. Þessar ábendingar taka aðallega til raforkunotkunar og sömuleiðis þess að lágmarka tap á varma:​

Mikilvægt er að forgangsraða raforkunotkun og taka út alla óþarfa notkun og taka út notkun sem kerfið mun ekki ráða við eins og að framan er lýst. Helstu dæmin eru eftirfarandi:

  • Rafhitaðir heitir pottar
  • Saunaklefar, gufuböð o.þ.h.
  • Heimahleðslur rafbíla
  • Allir hitagjafar sem eru utanhús, s.s. hitamottur í gangstétt eða í plönum og innrauðir hitagjafar til notkunar utanhúss.

    Einnig er mælt með að lágmarka notkun annarra raftækja og nota orkuna vel, sem dæmi:
  • Fyrir eldun skiptir ekki höfuðmáli hvort eldavélahellan eða hraðsuðuketill er notaður en það þarf alltaf að gæta þess að nýta orkuna vel, ekki hita upp að óþörfu. Í þeim tilfellum er betra að láta þá t.d. pastavatnið kólna frekar en að hella því í vaskinn. Þá nýtist varminn úr því til að hita upp eldhúsið. Einnig er mælt með að slökkva á ofnum eða öðru orkufreku álagi á meðan verið er að elda.
  • Lágmarka notkun þvotta-, og uppþvottavéla og ef þær eru notaðar gæta þess að fullnýta afkastagetu þeirra. Það munar mjög miklu að þvo á 60°C í stað 90°C. Sama gildir um uppþvottavélar. Nota stillingar sem hafa lægra hitastig. Sömuleiðis að nota kerfi sem taka lengri tíma í stað hraðþvotta (nota sparnaðarkerfi). Þurrkarar eru mjög orkufrekir og best að nota þá ekki ef rafmagn er af skornum skammti.
  • Það er hægt að nota eldunartæki utanhúss eins og gasgrill eða prímus. Alls ekki nota þessi tæki innanhúss.
  • Takmarka skal notkun ljósa. Nota þá helst ljósgjafa sem nýta orku sem best. Þetta á til dæmis við um nýrri LED ljós. o Til þess að takmarka varmatap er nauðsynlegt að loka gluggum, það getur verið nauðsynlegt að þétta opnanleg fög meira en venjulega til að draga enn frekar úr varmatapi.
  • Það er sömuleiðis gott að nota gluggatjöldin og draga fyrir glugga þegar ekki er sólskin.
  • Loka inn í herbergi sem eru ekki í notkun og þarf ekki að halda heitum.