Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær vill ekki skerða þjónustu við íbúana – Hafa því opið þann 19. júní

Flest stærri sveitarfélög landsins loka á hádegi

Flest stærri sveitarfélög landsins hafa ákveðið að loka skrifstofum og ýmsum stofnunum sínum á hádegi þann 19. júní, í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og gefa starfsfólki þannig kost á að taka þátt í hátíðarhöldum þann dag.

Ráðhús Reykjanesbæjar og allar stofnanir munu þó vera opnar, en þeir starfsmenn sem telja mikilvægt að sækja hátíðarhöldin geta nýtt sumarleyfið sitt eða tekið ólaunað frí í samráði við sinn næsta yfirmann.

Í svari við fyrirspurn LS varðandi ástæður þess að Reykjanesbær hefði ákveðið að hafa opið sagði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri “mörg fyrirtæki og stofnanir munu hafa opið þennan dag. Starfsfólk þeirra treystir á þjónustu Reykjanesbæjar s.s. leikskóla o.fl. sem það greiðir fyrir. Við viljum ekki skerða þjónustu við íbúana meira en nauðsynlegt er.”

Kjartan sagði enn fremur í svari sínu: “Ef gæta ætti jafnræðis ættu þeir allir að fá 4 klst. launað leyfi, ef ekki á föstudaginn þá síðar. Það gera um 5000 klst. sem kosta nokkrar milljónir. Það getum við ekki leyft okkur á sama tíma og við erum að leggja hæsta útsvar á Íslandi á bæjarbúa vegna fjárhagserfiðleika sveitarfélagsins.”