Nýjast á Local Suðurnes

HS Orka fær heimild til hreinsunar útfellinga með aukna náttúrulega geislavirkni

Sigurður M Magnússon, forstjóri Geislavarna segir að á grundvelli þeirra mælinga sem framkvæmdar hafa verið, mats á hugsanlegu geislaálagi (við innöndun) og eftir samráð og í samvinnu við sérfræðinga Geislavarnastofnunar Finnlands þá sé það mat Geislavarna ríkisins að geislun frá útfellingum í Reykjanesvirkjun sé svo lítil að fólki stafi ekki hætta af.

Umrædd geislavirk efni eru bundin í útfellingum á föstu formi sem verða á takmörkuðu svæði í lokuðu kerfi og er ekki um að ræða að þau losni til umhverfisins með affallsvatni frá virkjuninni, gufu eða á annan hátt. Til að ýtrustu öryggiskröfum sé fullnægt hafa Geislavarnir ríkisins beint því til HS Orku að þeir einstaklingar sem vinna við hreinsun á þessum útfellingum beri viðeigandi hlífðarbúnað.

HS Orka fær heimild til hreinsunar og geymslu

Geislavarnir hafa veitt HS Orku heimild til hreinsunar og geymslu útfellinga með aukna náttúrulega geislavirkni frá Reykjanesvirkjun. Starfsmenn Geislavarna hafa verið viðstaddir hreinsun útfellinga að undanförnu og hafa gert ýmsar mælingar á vettvangi.

Það er mat Geislavarna að líklegt sé að þessar útfellingar með aukna náttúrulega geislavirkni sé eingöngu að finna í borholutoppum við Reykjanesvirkjun vegna þess hversu sérstakar jarðfræðilegar aðstæður eru þar. Stofnunin hefur þegar gert mælingar við virkjanirnar við Svartsengi og Nesjavelli og ekki fundið neinar vísbendingar um aukna náttúrlega geislavirkni. Gert er ráð fyrir að mælingar verði gerðar við aðrar jarðvarmavirkjanir á næsta ári.