Nýjast á Local Suðurnes

Flókin staða í Grindavík – Altjón á húsum en bílskúrar viðgerðarhæfir

Alls hafa 53 húseignir (30 íbúðareignir og 23 atvinnueignir) og 2 innbú verið metin sem altjón af matsmönnum Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ). Búið er að hafa samband við alla eigendur húsnæðis sem matsmenn hafa þegar staðfest að sé óviðgerðarhæft.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá NTÍ, en þar segir einnig að í nokkrum tilvikum sé um að ræða þá flóknu stöðu að við íbúðarhús sem talin eru vera óviðgerðarhæf eru bílskúrar sem eru minna skemmdir og teljast því viðgerðarhæfir. Enn hefur ekki hefur verið leitt til lykta hvernig farið verður með þau mál og því þarf uppgjör á þeim að bíða enn um sinn. Einnig er ljóst að atburðirnir 14. janúar höfðu í mörgum tilfellum í för með sér veruleg viðbótartjón á þeim eignum sem áður höfðu verið metnar sem hlutatjón. Því er ekki raunhæft að leggja fram tjónamat á hlutatjónseignum fyrr en tækifæri hefur gefist til að leggja mat á þau áhrif sem eldgosið og jarðhræringarnar í janúar hafa haft í för með sér.