Tekin með tæpt kíló af kókaíni innvortis
Karlmaður og kona, bæði erlend, voru staðin að því að reyna að smygla fíkniefnum innvortis til landsins undir mánaðarmótin síðustu.
Um er að ræða tvö aðskild mál og var fólkið að koma frá Madrid á Spáni þegar árvökulir tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu það vegna gruns um að það væri með fíkniefni. Sú reyndist vera raunin. Lögreglan á Suðurnesjum handtók konuna og manninn og skilaði hann af sér 49 pakkningum á lögreglustöð og hún níu pakkningum. Samtals var konan með rétt um 350 grömm af kókaíni innvortis en maðurinn með nær hálft kíló af sama efni. Þau voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald.