Frystihús óstarfhæft vegna flóða
Töluvert flóð er í Grindavíkurhöfn, en þar hefur sjór gengið yfir af miklum krafti í morgun og meðal annars hefur flætt inn í frystihús og er það straumlaust og liggur vinnsla niðri.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir að þar sem verst er sé vatnið um hálfur metri að dýpt. Þetta sé mesta flóð sem hann muni eftir á svæðinu, en mikið óveður gekk yfir suðvestanvert landið í gærkvöld og í nótt. RÚV greinir frá.