Nýjast á Local Suðurnes

Þorbjörn hf. verðlaunað fyrir nýsköpun – Fullnýta sjávarfang í sinni framleiðslu

Þorbjörn hf. í Grindavík hlaut í gærkvöldi sérstök verðlaun fyrir nýsköpun þegar Creditinfo kynnti lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Í ár er veitt viðurkenning fyrir nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki í fyrsta sinn, markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum.

Þorbjörn hf. hefur fylgt þeirri hugmyndafræði að finna aðferðir til að fullnýta sjávarfang í sinni framleiðslu með sjálfbærni að leiðarljósi. Þá var félagið brautryðjandi í pækilsöltun á sjó á sínum tíma og hefur tekið þátt í þróunarverkefnum við að betrumbæta flokkunarkerfi fyrir saltfiskflök. Þessi áhersla þeirra á sjálfbærni hefur leitt af sér verðmætasköpun í dótturfélögunum Haustaki og Codland.

Bæði félögin nýta sjávarafurðir og skapa nýjar vörur úr hráefni sem áður var hent. Codland hefur meðal annars þróað aðferðir til að vinna Collagen úr fiskroði og framleiðir heilsudrykkinn Öldu úr því.

Þorbjörn hf. hefur einnig unnið að nýsköpun í mennta- og fræðslumálum, m.a. með samstarfi við Háskólann í Reykjavík og með því að bjóða unglingum í Grindavík upp á að sækja vinnuskóla til að efla áhuga ungs fólks á sjávarútvegi.