Nýjast á Local Suðurnes

Borgunarbikarinn í kvöld: Tölfræðin segir Keflavík og Grindavík vera í góðum málum

Það má búast við miklu fjöri á Nettó-vellinum í kvöld þegar Keflvíkingar taka á móti úrvalsdeildarliði Fylkis í Borgunarbikarnum í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 19.15, en Keflvíkingar munu byggja upp skemmtilega stemningu og byrja á að skella hamborgurum á grillið uppúr klukkan 18.

Liðin hafa leikið 45 innbyrðis leiki og hafa Keflvíkingar sigrað 20 sinnum, 11 sinnum hafa liðin skilið jöfn og Fylkir hefur haft sigur 14 sinnum. Fylkismenn hafa þó betri markatölu en í þessum 45 viðureignum hafa þeir skorað 67 mörk gegn 66 mörkum Keflvíkinga.

Grindvíkingar taka á móti KA-mönnum á Grindavíkurvelli klukkan 17.30, bæði lið leika í Inkasso-deildinni í knattspyrnu og eru í toppbaráttu, Grindavík í efsta sæti með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir, en KA-menn í þriðja sæti með 6 stig eftir jafn marga leiki.

Grindavík og KA öttu fyrst kappi í annari deild árið 1993 og lauk þeim leik með sigri KA-manna, síðan þá hafa liðin att kappi 25 sinnum og hafa Grindvíkingar reynst sterkari aðilinn 12 sinnum, 8 sinnum hafa liðin skilið jöfn og KA-menn því haft sigur 5 sinnum, markatalan úr þessum viðureignum er 39-33 Grindvíkingum í vil.

Víðismenn eru einnig á ferðinni í kvöld, en þeir taka á móti Sindra á Nesfisk-vellinum á slaginu klukkan 18. Tölfræðilega séð eru þessi lið hnífjöfn, liðin hafa leikið 9 sinnum í gegnum tíðina, Víðismenn hafa sigrað fjóra leiki, Sindri fjóra og einu sinni skildu liðin jöfn. Viðismenn hafa þó skorað fleiri mörk í þessum viðureignum eða 14 gegn tólf mörkum Sindra.