Nýjast á Local Suðurnes

Víðismenn féllu úr leik úr Borgunarbikarnum með sæmd

Víðir féll úr leik í Borgunarbikarnum í knattspyrnu í kvöld, en framlengingu þurfti til í viðureign liðsins gegn 1. deildarliði Selfoss.

Selfyssingar komust í 2-0 á 50. mínútu, en Víðismenn gáfust ekki upp og Aleksandar Stojkovic minnkaði muninn fyrir Víði á 61. mínútu. Björn Bergmann Vilhjálmsson jafnaði síðan metin á 78. mínútu, en mínútu síðar komust Selfyssingar yfir á ný. Það var svo Stojkovic sem jafnaði metin með öðru marki sínu í blálokin og framlenging var niðurstaðan.

Selfyssingar skoruðu fjórða mark sitt rétt fyrir leikhlé framlengingarinnar og þar við sat, þrátt fyrir stórsókn Víðismanna í síðari hálfleik framlengingarinnar.