Nýjast á Local Suðurnes

Samkomulag um að Skólar ehf. hætti rekstri leikskóla í Suðurnesjabæ

Samkomulag hefur verið undirritað af Suðurnesjabæ og Skólum ehf. varðandi samningslok um rekstur leikskólans Sólborgar í Sandgerði. Samkomulagið var staðfest á fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar í dag 29.maí.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins, en mikil umræða hefur verið um starfsemi og húsnæðismál leikskólans á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Í samkomulaginu felst að Suðurnesjabær mun taka yfir rekstur leikskólans eigi síðar en 30.júní 2024 og áhersla er lögð á vinna yfirfærsluna í góðu samstarf við starfsfólk, börn og foreldra.

Fundur var haldinn fyrr í dag 29.maí með starfsfólki leikskólans þar sem þeim var tilkynnt um þetta samkomulag, næstu skref kynnt og spurningum svarað. Sambærilegur fundur verður með foreldrum barna á leikskólanum á morgun fimmtudag kl.17:30 í sal Sandgerðisskóla, segir í tilkynningunni.

Áhersla Suðurnesjabæjar er að tryggja gott faglegt starf leikskólans í samstarfi við öflugt starfsfólk, foreldra og börn.

Framundan er vinna við að leysa úr húsnæðismálum leikskólans fram að sumarfríi með það fyrir leiðarljósi að starfsaðstæður og öryggi allra sé uppfyllt. Að loknu sumarfríi mun öll starfsemi leikskólans vera í nýju húsnæði að Grænuborg við Byggðaveg.