Nýjast á Local Suðurnes

Tónleikagestir velja lögin á hjólbörutónleikum

Undirbúningur fyrir Ljósanótt er í fullum gangi og enn bætast ný atriði við dagskránna. Að þessu sinni verður boðið upp á hjólbörutónleika í Keflavíkurkirkju á Ljósanótt þar sem tekið verður á móti óskalögum gesta úr sal og léttleikinn verður í fyrirrúmi.

Elmar Þór Hauksson, Arnór B. Vilbergsson og Kjartan Már Kjartansson munu flytja lög af rúmlega 100 laga lista, sem rúmast í einum hjólbörum, og verður efnisskráin þannig til á staðnum.

Þeir sjá sjálfir um kynningar og verður eflaust slegið á létta strengi enda þremenningarnir þekktir fyrir allt annað en alvarleika og verður því fróðlegt að sjá hvaða lög fá flest atkvæði tónleikagesta.

Tónleikarnir hefjast kl. 18.00 fimmtudaginn 3. september og er miðaverð kr. 1500. Miðasala hefst við innganginn kl. 17:30.