Nýjast á Local Suðurnes

Fótboltinn fer á fullt á ný – Ólík staða Suðurnesjaliðanna

Það verða Keflvíkingar sem hefja leik fyrst Suðurnesjaliðanna eftir stutt frí yfir verslunarmannahelgina, þeir bláklæddu ferðast í Kópavog þann 5. ágúst þar sem gestgjafarnir verða Breiðablik. Keflvíkingar eru sem kunnugt er í neðsta sæti Pepsí-deildarinnar með aðeins fimm stig eftir 13 leiki. Liðið hefur skorað 13 mörk í þessum 13 leikjum en fengið á sig 33. Leikur liðsins gegn Breiðabliki sem situr þessa stundina í 4. sæti deildarinnar hefst klukkan 19:15.

johannbirnirgudmundsson þjalfari kef

Jóhann Birnir Guðmundsson er annar þjálfara Keflavíkur sem bíður erfitt verkefni þann 5. ágúst

 

Grindvíkingar eru eina Suðurnesjaliðið sem á heimaleik í vikunni en þeir taka á móti Selfyssingum á Grindavíkurvelli þann 6. ágúst kl 19:15. Vonir Grindvíkinga um sæti í deild þeirra bestu minnkuðu til muna þegar liðið tapaði gegn Gróttu á dögunum. Liðið er á öruggu róli um miðja 1. deild.

Njarðvíkingar hafa verið á miklu ferðalagi undanfarið, hafa leikið bæði á Dalvík, þar sem liðið tapaði gegn Dalvík/Reyni í miklum baráttuleik og á Sauðarkróki þar sem liðið hafði sigur gegn Tindastóli. Liðið þarf ekki að ferðast eins langt þann 7. ágúst en þá eiga Njarðvíkingar leik í Mosfellsbæ kl. 19, þar sem gestgjafarnir eru Afturelding. Koma markamaskínunnar Tryggva Guðmundssonar virðist hafa haft góð áhrif á liðið sem fikrar sig nú hægt upp töfluna.

njardvik kv fotbolti

Njarðvíkingar eru á uppleið í 2. deildinni

Reynismenn úr Sandgerði eiga útileik gegn Einherja þann 8. ágúst í 3. deildinni leikurinn hefst kl. 14. Reynismenn eru í 3. sæti 3. deildarinnar eftir 12 leiki með 23 stig.

Víðir Garði á útileik í sömu deild gegn KFS, hlutskipti liðanna eru ólík í deildinni en Víðismenn eru í neðri hluta 3. deildar með 10 stig. Liðið hefur bætt við sig fjórum leikmönnum í félagskiptaglugganum og stefna á að halda sæti sínu í deildinni. Leikur KFS og Víðis fer fram þann 8. ágúst kl. 14.

vidir leikmenn rafn vilbergs

Víðismenn hafa fengið til sín fjóra nýja menn og stefna á að halda sér uppi

Hlutskipti Þróttar úr Vogum er best Suðurnesjaliðanna þegar kemur að stöðu í deild en þeir eru langefstir í C-riðli 4. deildar með 23 stig eftir níu leiki. Þeir, líkt og Keflvíkingar fara í Kópavoginn, nánar tilitekið í Kórinn þar sem þeir mæta liði Ísbjarnarins þann 7. ágúst kl. 19.