Nýjast á Local Suðurnes

Mannanafnanefnd er FöstudagsÁrna ofarlega í huga

Get svo svarið það finnst ég skrifa föstudagspistil þriðja hvern dag – við verðum komin í Spedo sundskýlurnar og bikiníin í 12° áður en við vitum af ! Hérna kemur pistill vikunnar, hann þarf ekki endilega að endurspegla skoðun þjóðarinnar, en höfum smá gaman af lífinu:)

Árni Árna

Árni Árna

Biggest loser, 3ja sería hófst í vikunni og að þessu sinni er Eyþór ekki með, það kom mér soldið á óvart. Ég hélt að Reykjanesbæ hefði gert samning um afnot af Ásbrú með því skilyrði að Eyþórinn okkar væri með í pakkanum. Ég er mikill aðdáandi þáttanna og þarf að passa mig að enda ekki sem þátttakandi. Gurrý þjálfari er svo mikill nagli, ég dýrka hana, en ég þarf að kvarta við Skjá einn. Það er alveg tímabært að Evert verði ber á ofan í einum þætti, bið nú ekki um meira.

Landsliðið okkar í handbolta hélt á EM og maður gat varla kveikt á útvarpi eða horft á sjónvarp án þess að heyra endalausar auglýsingar þess efnis. En ferðin breyttist skyndilega bara í hálfgerða helgarferð hjá strákunum okkar eftir einn súrasta leik liðsins til þessa. EN þeir verða alltaf strákarnir okkar og við stöndum með þeim. Þetta er bara eins og hjónaband, í blíðu og stríðu, nema þeir fá engar fálkaorður í þetta skiptið.

Talandi um hjónaband, en þá sýnir ný könnun að þriðjungur þeirra sem stunda kynlíf hafa hlotið meiðsli við þann gjörning. Kynlíf er ekkert annað en líkamsrækt og hver og einn þarf að vega og meta getu sína, maður er ekkert all in í spinning ef viðvarandi hreyfingarleysi í nokkur ár hafi átt sér stað. En það er alveg típískt að allt sem er gott er annaðhvort óhollt eða stórhættulegt.

Eitt skemmtilegasta fyrirbærið í íslenskri stjórnsýslu er mannanafnanefnd. Já það er sérstök nefnd sem þarf að samþykkja nafnagiftir landans. Ég hef nú aldrei skilið það ófrjálsræði að fólki fái ekki frjálsar hendur þegar kemur að því að skíra börnin sín, en kannski er þörf á því miðað við beiðnirnar sem berast til nefndarinnar. Nú á síðasta fundi var gefið leyfi á kvenmannsnafninu Skaði. Já Skaði. Hver vill skíra barnið sitt Skaði. Það er spurning hvort ungar konur sem verða óvart þungaðar eftir skyndikynni láti vaða á þetta nafn í einhverju ósætti við sjálfa sig. Hvað á barnið að heita ? Skaði Skeður Gunnhildardóttir.

Ég veit að ég er að láta tilfinningar ráða ferðinni þegar ég segi að hvað mig varðar þá á dæmdur morðingi ekki að fá lögmannsréttindi sín til baka. Ég horfði á einlægt viðtal við föður fornarlambsins og mikið fann ég til með þessu ljúfa manni. Rökin hans náðu mér alveg. Viljum við að dæmdir einstaklingar, morðingjar og nauðgarar fái heimild til þess að geta sóst eftir því að verða hæstaréttardómarar? Margir styðja Atla Helgason í þessu máli og allt í góðu með það. En það skítur skökku við að á dögunum var viðtal við ungan mann sem fyrir 5 árum lauk afplánun í Brasilíu fyrir eiturlyfjasmygl. Hann fær ekki íbúð á leigu og hvað þá vinnu, 5 árum eftir afplánun. Svo er okkur sama þótt morðingi sé starfandi í dómskerfinu, tvískinnungur að mínu mati, sá drap allavega engan.

Haldiði að Hrafn Gunnlaugsson sé ekki risinn upp frá dauðum og flaggar nýju kvikmyndahandriti sem að sjálfsögðu gerist á landnámsöld. Hann lofaði þjóðinni að Myrkvahöfðinginn 1999 væri sitt síðasta verk en hann ætlar greinilega að svíkja það. Ég segi nú bara dreptu mig ekki elsku Krummi. Hvar ertu búinn að vera? Sem betur fer hefur íslensk kvikmyndagerð þróast frá því að þú varst í þessu í den. Það eru allir orðnir grútleiðir á víkingabullinu, hentu nú handritinu í arininn og haltu áfram að safna drasli elskan.

Niðurskurðarhnífurinn hefur verið rifinn upp úr skúffu borgarstjóra, enda ekki þörf á því. Versta afkoma borgarinnar var á síðasta ári og óvíst hvernig þetta ár kemur út. Nema hvað að hnífurinn sker fyrst niður í grunnþjónustu borgarinnar. Skólakerfið fær að finna fyrir því, spurning hvað verður um kosningaloforð Sóleyjar Tómasdóttur í VG um gjaldfrjálsa leikskóla – það var að vísu bara loforð til að komast inn, svo samþykkir hún hækkanir þessi elska. Velferðakerfið verður hengt í snöruna, álögur á byggingaframkvæmdir, bara til að nýbyggingar hækki umtalsvert, ekki taka byggingaverktakar á sig hækkunina, hún fer beint út í verðlagið. Það er orðin slík staðan í borginni að það er ekki bara ungt fólk sem er í vanda með að kaupa sína fyrstu íbúð, heldur millistéttin eins og leggur sig. Borgarstjóri lofaði þvílíkri fjölgun íbúða í borginni á þessu kjörtímabili, nema hvað það er ekkert til að fjölbýlishúsalóðum til úthlutunar. Framboð minna en eftirspurn, fasteignaverð hækkar sem og leiga – ef ekkert verður aðgert stefnir í að meðalfjölskyldan leitar út fyrir borgarmörkin, ælti maður endi ekki bara á Völlunum í Hafnarfirði !

Góða helgi