Nýjast á Local Suðurnes

Freyjudagspistill Árna Árna er í boði Pírata

Gleðilegan freyjudag kæru vinir, hérna kemur freyjudagspistillinn í boði pírata

Heyrði auglýsingu í útvarpinu frá Elko sem var samtal tveggja og hljóðaði sirka svona „ mig langar ekki í kaffi hjá henni, hún hellir upp á svo vont kaffi – hey gefðu henni nýja kaffivél“ svo kom slagorðið „Segðu það með gjöf.“ Ég fór að velta fyrir mér að þessi auglýsing getur haft neikvæð áhrif. Sumar auglýsingar festast í undirmeðvitundina og einhver gefur frúnni andlitsbað eða föt sem óvart eru of stór. Þá gæti Elko auglýsingin poppað upp í hugann og frúin sannfærð um að hún sé að fitna eða þurfi smá yfirhalningu í framan – segðu það með gjöf.

arni arna keflavikurn

Gluggapóstur er óvinsælt viðfangsefni sem við þurfum því miður að tækla á lífsleiðinni og vekur ekki mikla lukku þegar þetta smígur inn um bréfalúguna hjá okkur. Flestir bíta á jaxlinn og tækla þetta, reyna að standa í skilum og hafa yfirsýn yfir fjármálin. Frosti, útvarpsmaðurinn umdeildi er kannski ekki alveg einn af þeim ef marka má útvarpsviðtal við hann á Bylgjunni fyrr í vikunni. Hann var að fara yfir gluggapóstinn sem hafði safnast saman síðan í apríl og rakst á umslag sem var ekki gluggapóstur. Þarna var á ferðinni hótunarbréf. Já og hann rak augun í það 8 mánuðum síðar. Það er eins gott að frúnni hans hafi ekki verið rænt og mannræninginn sent honum lausnarkröfuna í pósti. Já eða fjárkúgunarsysturnar hefðu fjárkúgað hann, beinagrindurnar af systrunum hefðu fundist út í hraunbreiðu í Hafnarfirði þar sem þær biðu eftir peningunum. En þið sem þekkið Frosta ekki bjóða honum í brúðkaup eða fermingu með því að senda boðskortið í pósti.

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar biðlaði í vikunni til Guðna forseta um stjórnarmyndunarumboð til að mynda utanþingstjórn. Hver pantaði Ladda segi ég nú bara. En ég verð að gefa þessum öfgavinstri refi stig fyrir að kæta og bæta lund mína. Alþýðufylkingin náði ekki manni á þing, en með bón sinni sýnir Þorvaldur alvarleikann sem ríkir í stjórnmálunum um þessar mundir. Fulltrúar allra sjö flokkana sem eiga fulltrúa á þingi mættu í Kastljós í vikunni og þar voru fimm flokkarnir sem hafa tvisvar sinnum að hið minnsta reynt að mynda ríkisstjórn komnir í hár saman. Katrín Jakobs var ekki sátt við hvernig vegið var að sínum flokki og Birgitta var eins og óþekkt barn. Hvernig ættu þessir flokkar að starfa saman í ríkisstjórn fyrst að þeir höndla ekki einn Kastljósþátt? Logi frá Samfylkingunni var eins og hundur á lóðaríi mígandi utan í allt og kominn á afturlappirnar við hvert tækifæri í von um að einhver tíkin hleypi sér inn. Já það er sannkölluð stjórnarkreppa ríkjandi og nokkuð ljóst að mínu mati að lítið gerist fyrir jól.

Já sú kalda staðreynd liggur fyrir að ungt fólk er farið að fjárfesta í hjólhýsum til að eignast heimili. Innan fárra ára gætum við horft upp á það að hér myndist hjólhýsahverfi – nöpurleg staðreynd og minnir á braggahverfin sálugu þar sem fátækt fólk bjó við skert lífskjör. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var öllu fögru lofað í húsnæðismálum ungs- og efnaminna fólks. Núverandi borgarstjóri lofaði fjölgun íbúða og jú það er verið að fjölga þeim, en hvað er það vandamálið. Jú þétting borgarinnar felur í sér að gamlar byggingar eru keyptar, þær rifnar og nýjar lúxusíbúðir reistar í staðinn. Sjáum til að mynda Lýsisreitinn vestur í bæ. Íbúðirnar sem nú eru komnar í sölu eru á verði sem fáir ráða við sem fyrstu kaup. Hver þurfa launin að vera til að fjárfesta í 50-80 milljóna blokkaríbúð? Sá eina 80 fm. íbúð á Laugarvegi á 67 milljónir. Borgarstjórinn með sínar 2 millur á mánuði skilur ekki hvað fólk er galið, það er verið að fjölga íbúðum kaupið bara og hættið þessu væli. Nei næsta skref borgarstjóra er að tengja vatn, rafmagn og skolp fyrir hjólhýsahverfi ungs fólks sem berst í bökkum við að búa í sjálfri borginni.

Vigdís Grímsdóttir rithöfundur reið ekki feitum hesti eftir að hafa kært Mosfellsbakarí, húseigenda og húsfélag. Rithöfundurinn vinsæli álpaðist inn í bakarí og þegar hún var á leið út með vínarbrauðslengjuna upp á arminn danglaði hurðin eitthvað í hana og hún öklabrotnaði. Hún vann málið fyrir dómi og liggur fyrir að hurðin sem um ræðir og hefur þjónað borgarbúum með sóma í áratugi er eitthvað ofvirk og lokar sér hraðar en skyldi. Vigdísi voru dæmdar ein milljón króna í skaðabætur nema að hún tapaði kröfunni á húsfélagið og þarf að greiða málskostnað þess upp á 700 þúsund. Rithöfundurinn fékk því í raun bara tveggja vikna listamannalaun eftir herlegheitin, eða 300 þúsund og ætti nú að geta bara látið senda sér vínarbrauðið heim að dyrum.

Jæja þurfum við ekki að fara að taka jónurnar af þeim í pírötum? Birgitta Jóns vill að þjóðkirkjan skili fjárlögum sínum til heilbrigðismála og ágætur klerkur settist fyrir framan tölvuna og sakar pírata um hroka og vanþekkingu í garð þjóðkirkjunnar. Bara til að bæta í rembingin þarna á milli vilja nú píratar breyta nöfnum á dögunum, taka aftur upp gömul heiti sem kirkjan stal af þjóðinni. Samkvæmt pírötum er því freyjudagur í dag, ekki föstudagur. Slökum aðeins á, tónum okkur aðeins niður í bullinu það nennir enginn að breyta heitunum á sjálfum dögunum, eigum við ekki bara að taka út þorrann og sjálf jólin líka ?

Góða helgi