Nýjast á Local Suðurnes

Rán í Hafnarfirði og Gylfi Ægis eru á meðal pælinga Árna Árna á föstudegi

Kjánalegasta frétt vikunnar var án efa á forsíðu Fréttablaðsins síðastliðin föstudag. Þar var greint frá því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála þurfti ekki að bíða í röð eftir að komast á salerni. Jú það er víst orðið þannig ástandið að ferðamenn kasta af sér hingað og þangað, enda erum við að eyða of litlu fjármagni í uppbyggingu greinarinnar. En hver benti á það að ráðherra kastaði af sér án vandræða, án þess að bíða í röð, hún sjálf ? Eða var það glöggur ferðamaður sem rak upp stór augu þegar ráðherrann kom töltandi og snaraði sér inn án vandræða ? Það er ekki nóg að leggja land undir fót og kasta af sér til að blása á neikvæða umræðu, þetta set up klikkaði algjörlega hjá frú ráðherra.

local

Árni Árna

Íslendingar eru magnaðir. Fjöldi þeirra stóðu í röð yfir heila nótt til að hljóta gjafabrét uppá heila 6 kleinuhringi á viku í heilt ár. Alls 50 þeirra eru nú á Dunkin Donuts kúrum, já eða 49 þar sem einn áttaði sig á því eftir að hafa verið í röðinni í 12 klst. að honum langaði eigilega ekkert í kleinuhringi. Spurning að slaka á í græðinginni og hleypa bara næsta hlunki að? Kleinuhringir gleðja bragðlaukanna en setjast utan á mann ef lítil er viðveran í ræktinni. Tilhugsunin hjá mér var hvort ég gæti haldið út í heilt ár að japla á 6 kleinuhringjum á viku og gæti ég lagt það á baðvigtina ? Fylgdi kannski með gjafabréfinu 4 fríar vigtanir á hafnarvigtinni við Granda ?

Ríkisstjórn Rússlands stendur víst við pottana og hrærir í viðskiptaþvingunaruppskrift sinni sem lögð verður á borð okkar íslendinga. Þetta mun án efa hafa áhrif á fiskútflutning og margir hafa tjáð sig um áhrifin á sölu makríls. Ég hleraði það nú á dögunum að íslenskar útgerðir eiga ennþá hundruð tonna í frysti síðan í fyrra og að stórar sendingar af makríl á rússlandsmarkað eru enn ógreiddar. Í mínum huga eru þetta minnstu áhyggjurnar á stöðunni varðandi Rússland. Stefnan virðist vera að landið verði algjörlega sjálfbært, engu háð og stefnan tekin á landvinninga.

Veit einhver hvort Gylfi Ægis hafi droppað inn á Ólís og fjárfest í sterkari gleraugum? Hann sá ekkert nema typpasleikjóa á myndunum úr gleðigöngunni og spurning hvort snuddusleikjóarnir kveikja aftur í honum þetta árið. Ég er í rauninni farinn að glotta yfir Gylfa og hans örfáu fylgjendum sem eiga án efa um sárt að binda þessa daganna. Hinsegin dagar eru á fullu og toppnum verður náð á laugardaginn með sjálfri gleðigöngunni. Allir eiga að búa við réttlæti og mannréttindi í lífinu án þess að sitja undir níði og ranglæti. Þetta á ekki bara við um hinsegið fólk, skortur á mannréttindum er að finna líka meðal annarra þjóðfélagshópa og að sjálfsögðu er gleðigangan góð áminning á mannréttindi handa öllum. En spáið samt í því hvað þetta er fjarstæðukennt, ef sala á typpasleikjó væri eina vandamálið í samfélaginu?

Dularfyllsta rán landsins um langa hrið átti sér stað í Hafnarfirði í vikunni, eða á ég að segja tilviljunarkennsta? Hverjar eru líkurnar á því að einn öryggisvörður geri skelfileg mistök í vinnunni og stuttu síðar er framið rán upp á milljónir? Þar sem ég vil hafa góða yfirsýn (kafna úr forvitni) get ég ekki beðið eftir niðurstöðu í þessu máli. Ef ég væri í löggunni væri ég búinn að rannsaka alla sem þessi öryggisvörður hefur talað við síðustu 3 árin og láta köttinn hans laxera. Einnig er ég forvitinn að vita hvernig er hægt að koma þessum ránsfeng í umferð? Varla verður þetta í boði í Kolaportinu á laugardaginn ? Ég þarf koma mér í mjúkinn hjá Lögreglunni, ætla að sækja um starf í skjalageymslunni.

Hrós vikunn fá píratar, loksins afkastaði þessi ágæti flokkur verki sem gladdi mig. Þau létu Þráinn Bertelsson hætta á facebook. Þessi grínmyndahöfundur sem skemmt hefur landanum með góðu léttmeti á hvíta tjaldinu tapaði persónuleikanum og húmornum þegar hann settist á þing. Fyrir utan það að þiggja listamannalaun á meðan setu hans stóð á Alþingim, hefur hann vegið að fólki úr öllum áttum. Ég var svo glaður með pírata fyrir að standa upp í hárinu á honum að ég opnaði einn bjór af sama styrkleika og fylgi Bjartrar framtíðar mælist í skoðunarkönnunum – og fann ekki fyrir neinu, rétt eins og þjóðinn finnur ekki fyrir neinu frá þessum flokki.

Núna sit ég sveittur við að refresh-a bland.is, það hlýtur einhver í eyjum að eiga verk eftir Tolla sem ólmur vill losna við það strax fyrir lítið fé. Tolli hefur hrist upp í umræðunni og kannski allt í góðu að ræða. En þvi miður geta margar aðstæður kallað fram hvatir gerenda, sama hvar þeir eru staddir hverju sinni, þannig að ég styð eyjamenn og þjóðhátíð.