Nýjast á Local Suðurnes

Ráða fólk til starfa við gosstöðvar

Ráðið verður starfsfólk til að taka við af björgunarsveitarfólki við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga og hefur Grindavíkurbær þegar auglýst eftir sumarstarsfólki sem mun að hluta sinna þessum verkefnum. Þá verða gönguleiðir lagaðar.

Fram kom í máli Fannars Jónssonar, bæjarstjóra Grindavíkur, í Speglinum á Rás tvö, að björgunarsveitarmenn hafi staðið vaktina á gosstað frá upphafi og að ljóst sé að þeir geti ekki sinnt þessu starfi um ókomna tíð.

Þá er vinna hafin við að leggja ofaníburð á fyrsta kafla gönguleiðarinnar að gosstöðvunum, um 600 til 800 metra frá þjóðveginum að Borgarfjalli. Þessi leið hefur verið nokkuð erfið yfirferðar. Fannar segir að sótt hafi verið um framlög frá ríkinu til að bera í stígana upp að gosinu.