Nýjast á Local Suðurnes

Framkvæmdasjóður veitir styrki til uppbyggingar á innviðum Reykjanes Geopark

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði á dögunum 647 milljónum til 37 verkefna um allt land, þrír styrkir fóru til verkefna innan Reykjanes Geopark. Þessir styrkir munu koma til með að nýtast vel til þess að byggja upp innviði á svæðinu, þar sem ferðamönnum fjölgar hratt.

Reykjanes Geopark – Brimketill: Aðkoma og upplifunarsvæði fær kr. 25.600.000,- styrk til framkvæmda við Brimketil í landi Grindavíkur á grundvelli samþykkts deiliskipulags. Um er að ræða bílastæði, stíga og útsýnispalla. Vel undirbúið og mikilvægt verkefni vegna aðgengis og öryggis ferðamanna, og grunndvallarinnviða á sífellt fjölsóttari ferðamannastað.

Minjastofnun Íslands – Selatangar. Endurbætur á aðgengi og aukin upplýsingagjöf fær kr. 1.380.000,- styrk til endurbóta á aðgengi og aukinni upplýsingagjöf við friðlýsta minjastaðinn á Selatöngum í Grindavík. Verkefnið gerir gönguleiðina og sjálfan minjastaðinn öruggari fyrir ferðamenn, auk þess að styðja við upplifun á svæðinu og eykur þannig líkur á góðri umgengni við minjar og náttúru.

Sveitarfélagið Garður – Salernis- og hreinlætisaðstaða Garðskaga fær fr. 13.200.000,- styrk vegna uppbyggingar á salernis-og hreinlætisaðstöðu við Byggðasafnið á Garðskaga. Brýnt verkefni til uppbyggingar grunnaðstöðu á sívinnsælli áfangastað, ekki síst með tilliti til norðurljósaferða utan hefðbundins opnunartíma.