Nýjast á Local Suðurnes

Lægðin fletti klæðningu af Nes­vegi

Vegagerðin greinir frá skemmdum á Reykjanesi af völdum lægðarinnar og mikils sjógangs sem henni fylgdi á vef sínum. Meðal annars flettist vegklæðning af um þrjú hundruð metra kafla Nesvegar sem liggur milli Grindavíkur og Reykjanesvita.

Þá segir að Vegagerðin hafi fylgst vel með stöðunni 5. og 6. janúar enda hafi nokkur hætta verið á ferð vegna hárrar sjóstöðu í bland við mikinn vind.

„Í Grindavíkurhöfn flæddi yfir bryggjukanta sem fóru allir á kaf. Einhverjir sjóvarnargarðar löskuðust vegna veðursins, sjór flæddi inn á svæði hjá Matorku, vestan við Grindavík og golfvöllurinn við Grindavík fór á kaf,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.

Myndir: Vegagerðin