Nýjast á Local Suðurnes

Kjarnorkutilraun Norður Kóreu mældist á Reykjanesi

Jarðskjálftamælar staðsettir á Suðurlandi, þar á meðal mælar sem staðsettir eru við stöðvar HS Orku á Reykjanesskaga greindu merki um skjálfta í Norður-Kóreu, á svipuðum tíma og greint var frá því í fréttum að Norður-Kórea hafi sprengt vetnissprengu neðanjarðar í tilraunaskyni. Skjálftarnir mældust meðal annars á mælum við Gunnuhver og í Eldborgum.

Þetta kemur fram á vef Íslenskra orkurannsókna, en þar kemur jafnframt fram að jarðskjálftamælar ÍSOR á Norðurlandi hafi greint skjálftann nokkuð skýrt aðfaranótt sunnudagsins 3. september.  Þegar klukkuna vantaði 20 mínútur í fjögur (03.40) greindu mælarnir skjálfta í kringum 6 að stærð, sjá mynd hér að neðan. Á svipuðum tíma var greint frá því í fréttum að Norður-Kórea hafi sprengt vetnissprengu neðanjarðar í tilraunaskyni.

Skýringar við myndinni hér að neðan, neðri rauða örin bendir á skjálfta sem mældust á Reykjanesi:

Gögnin eru filtreruð lowpass 0.7Hz og myndin sýnir um 3 mínútur af gögnum.
Fyrsti dálkur er skammstöfun eða “gælunafn” mælistöðvar en annar dálkur sýnir netnafn þar sem:
KR = stöðvar Landsvirkjunar í Kröflu og á Þeistareykjum
NO = stöðvar Norðurorku í Eyjafirði
ON = stöðvar Orku Náttúrunnar á Hengilssvæði
RR = stöðvar HS Orku á Reykjanesskaga