Nýjast á Local Suðurnes

Styrktarspinning Sporthússins – Ágóðinn rennur til styrktarfélags hjartveikra barna

Spinningkennarar Sporthússins munu standa fyrir styrktarspinning sunnudaginn 11. mars, frá klukkan 10:30 til klukkan 12:30. Allir kennarar munu gefa vinnu sína og mun ágóðinn af viðburðinum renna óskiptur til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna.

Hugmyndin að þessum viðburði vaknaði hjá einum af spinningkennurum Sporthússins, Elísu Rut Gunnlaugsdóttur. Fyrir 6 mánuðum síðan fæddist hjartahetjan hennar, hann Þór Júlían. Hann fór í opna hjartaaðgerð í Svíþjóð 3 daga gamall. Að eignast veikt barn tekur á en stuðningurinn sem Elísa og hennar fjölskylda fengu úr öllum áttum var og er þeim ómetanlegur. Þau geta ekki líst með orðum hversu þakklát þau erum öllum þeim sem komu að þessu ferli, þar á meðal Neistanum, segir í tilkynningu á vef Sporthússins.

“Ég hugsaði mikið um hvað ég vildi geta sýnt þakklæti okkar í gjörðum og gefið til baka, og þannig spratt upp sú hugmynd um styrktarspinning.Ég setti mig í samband við Ara og Evu sem tóku afar vel í þessa hugmynd og hafa unnið með mér að skipulagningu.” Segir Elísa á vef Sporthússins.

Hugmynd Elísu er því að verða að veruleika og ætla fimm aðrir kennarar að gefa sínu vinnu og spinna í þrjár klukkustundir næstkomandi sunnudag.

10:30 Elísa Rut og Freyja Hrund
11:30 Kalli og Unnar Steinn
12:30 Ásdís og Inga Lára

Skráning fer fram í afgreiðslu Sporthússins (421-8070). Aðgangur í hvern tíma er kr. 1.000 að lágmarki. Það þarf ekki að vera með aðgang í Sporthúsið, allir velkomnir.

Í hverjum tíma verður dreginn einn heppinn þátttakandi og hlýtur hann glæsileg verðlaun sem má sjá hér fyrir neðan.

10.000 kr. gjafabréf frá Nike í boði Icepharma
FitAid Recovery blöndu í boði FitAid
5.000 kr. gjafabréf í Líkama og Boost.

Aðstandendur búast við miklum fjölda þátttakenda og því verður miðað við að “fyrstur kemur fyrstur fær” þannig að ekki hinkra of lengi með að skrá þig.