Um 30 fjölskyldur að missa íbúðir – “Ríkið er búið að yfirbjóða leiguna”

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sýndi þingmönnum leigusamning sem honum hafði borist frá íbúa á Suðurnesjum á Alþingi í dag. Í ræðu sinni sakaði þingmaðurinn ríkið um að yfirbjóða einstaklinga á leigumarkaði á svæðinu. Ásmundur sagði að um 30 slík dæmi væri að ræða.
„Nú er svo komið að leigusalar á Suðurnesjum eru hættir að endurnýja leigusamninga eins og þennan hérna við íbúa sem hafa verið á leigumarkaði í yfir 15 ár, eins og við þann einstakling sem á þennan samning. Hann fær ekki framlengingu á leigusamningum sínum vegna þess að ríkið er búið að yfirborga leiguna,“ sagði Ásmundur og bætti við að búið væri að yfirbjóða leiguna á 30 samningum á Ásbrú, þar sem 30 fjölskyldum er sagt upp leigunni til að koma fyrir útlendingum.
„Þessum einstaklingi er boðið helmingi minna húsnæði á 140.000 kr. á mánuði þar sem er aðgangur að salerni og sameiginlegu eldhúsi. Erlendir byggingarverktakar sem vinna á höfuðborgarsvæðinu, í Suðurnesjabæ og í Reykjanesbæ hefur verið sagt upp blokkinni sem þeir búa í vegna þess að Vinnumálastofnun er búin að yfirbjóða leiguna.“
Ásmundur benti á að reglulega hafi verið talað um það á Alþingi að koma eigi á leiguþaki hér á landi.
„Mér hefur stundum dottið í hug að styðja jafnvel þá tillögu, en þegar ríkið sjálft er nú farið að ganga fram með þessum hætti þá nær það ekki nokkurri átt. Það er þannig suðurfrá að ef það losnar íbúð þá eru tugir fjölskyldna sem eru að reyna að fá íbúðir, sem hefur þau áhrif að það er alveg sama hvaða kompur eru í boði; leiguverðið fer upp úr öllu valdi. Það ræður enginn orðið við að leigja hús á Suðurnesjum. Og það er ríkið sem gengur þar á undan,“ sagði Ásmundur sem endaði ræðu sína á þessum orðum:
„Virðulegur forseti. Er ekki mál að linni í því máli?“