Nýjast á Local Suðurnes

Um 30 fjölskyldur að missa íbúðir – “Ríkið er búið að yfirbjóða leiguna”

Ás­mundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sýndi þing­mönnum leigusamning sem honum hafði borist frá íbúa á Suðurnesjum á Alþingi í dag. Í ræðu sinni sakaði þingmaðurinn ríkið um að yfirbjóða einstaklinga á leigumarkaði á svæðinu. Ásmundur sagði að um 30 slík dæmi væri að ræða.

„Nú er svo komið að leigu­salar á Suður­nesjum eru hættir að endur­nýja leigu­samninga eins og þennan hérna við íbúa sem hafa verið á leigu­markaði í yfir 15 ár, eins og við þann ein­stak­ling sem á þennan samning. Hann fær ekki fram­lengingu á leigu­samningum sínum vegna þess að ríkið er búið að yfir­borga leiguna,“ sagði Ás­mundur og bætti við að búið væri að yfir­bjóða leiguna á 30 samningum á Ás­brú, þar sem 30 fjöl­skyldum er sagt upp leigunni til að koma fyrir út­lendingum.

„Þessum ein­stak­lingi er boðið helmingi minna hús­næði á 140.000 kr. á mánuði þar sem er að­gangur að salerni og sam­eigin­legu eld­húsi. Er­lendir byggingar­verk­takar sem vinna á höfuð­borgar­svæðinu, í Suður­nesja­bæ og í Reykja­nes­bæ hefur verið sagt upp blokkinni sem þeir búa í vegna þess að Vinnu­mála­stofnun er búin að yfir­bjóða leiguna.“

Ás­mundur benti á að reglu­lega hafi verið talað um það á Al­þingi að koma eigi á leigu­þaki hér á landi.

„Mér hefur stundum dottið í hug að styðja jafn­vel þá til­lögu, en þegar ríkið sjálft er nú farið að ganga fram með þessum hætti þá nær það ekki nokkurri átt. Það er þannig suður­frá að ef það losnar íbúð þá eru tugir fjöl­skyldna sem eru að reyna að fá í­búðir, sem hefur þau á­hrif að það er alveg sama hvaða kompur eru í boði; leigu­verðið fer upp úr öllu valdi. Það ræður enginn orðið við að leigja hús á Suður­nesjum. Og það er ríkið sem gengur þar á undan,“ sagði Ás­mundur sem endaði ræðu sína á þessum orðum:

„Virðu­legur for­seti. Er ekki mál að linni í því máli?“