Nýjast á Local Suðurnes

Heimilislaus einstæð móðir: “Menn hafa boðið mér húsnæði gegn kynlífi”

Innri - Njarðvík

Sigrún Dóra Jónsdóttir og tvö af fjórum börnum hennar, sem þurftu að yfirgefa leiguhúsnæði sitt í Innri-Njarðvík á dögunum hafa fengið loforð fyrir íbúð. Sigrún Dóra greindi frá þessu í viðtali við Stöð 2 í dag, en þar kom einnig fram að hún hafi fengið gífurlega góð viðbrögð frá bæjarbúum eftir að málið kom upp, en einnig miður skemmtileg tilboð frá mönnum sem vildu nýta sér neyð hennar.

Suðurnes.net greindi frá aðstæðum Sigrúnar Dóru þann 10. júlí síðastliðinn, en þá hafði hún meðal annars tilkynnt sjálfa sig til barnaverndar Reykjanesbæjar í þeirri viðleitni að fá úrlausn sinna mála, án árangurs.

“Ég hreinlega trúði á það mannlega í fólki og gerðist svo vitlaus að halda að með þessari löngu baráttu, skrifum og samtölum við bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar, hvern einn og einasta fulltrúa í bæjarstjórn, endalausar beiðnir og tilkynningar um sjálfa mig til barnaverndarnefndar sem og felagsþjónustu, erindi og skrif til ALLRA ráðuneyta og sjálfan forseta Íslands gæti það ekki staðist að ég og börnin mín yrðum sett út á götu.” Sagði Sigrún þann 10. júlí síðastliðinn.

Í viðtalinu við Stöð 2 sagðist Sigrún hafa fengið símtal frá leigusala í dag og fær aðgang að íbúð þann 24. ágúst næstkomandi. Sigrún sagðist einnig hafa fengið ýmis miður skemmtileg tilboð frá mönnum sem vildu nýta sér neyð hennar.

„Menn sem sáu ástæðu til að svala kynferðislegum losta sínum á neyð minni. Þeir hafa boðið mér húsnæði, boðið mér ýmislegt, gegn kynlífi.” Sagði Sigrún í viðtalinu við Stöð 2, sem finna má hér.