Nýjast á Local Suðurnes

Úrræðaleysi hjá félagsþjónustu – “Veit ekki hvar við værum stödd ef við hefðum ekki fólkið frá Öspinni”

Dýr úrræði, skortur á samskiptum á milli fagaðila og sparnaður hafa verið nefndar sem helstu ástæður þess að lítið hefur verið gert í málefnum fjölskyldu sem segja má að haldið sé í gíslingu af sextán ára dreng á heimili sínu í Reykjanesbæ. Þetta segir Unnur Helga Snorradóttir, móðir drengsins, sem glímir við margþættan vanda, meðal annars flogaveiki, þroskaveikleika og alvarlega þráhyggju- og áráttuhegðun sem hefur leitt til alvarlegs ofbeldis af hans hálfu, í viðtali við vefmiðilinn Stundina.

Fram kemur í viðtali Stundarinnar að ástæður þess að drengurinn hafi átt erfitt með að stjórna skapi sínu frá unga aldri séu fjölmargar, en fyrir utan þroska- og hegðunarvandamál hefur hann þurft að glíma við sorgarferli sökum þess að tvíburabróðir hans fæddist andvana, og að hann hafi smátt og smátt áttað sig á því og kenni fjölskyldunni um að það hafi gerst.

“Það má segja að hann sé fastur i reiðinni í sorgarferlinu, hann er reiður vegna þess að bróðir hans lifði ekki og kennir hann okkur um. Hann þarf leiðsögn i gegnum sorgarferlið, hann glímir einnig við sorg með fötlun sína.” Sagði Unnur helga í samtali við Local Suðurnes.

Local Suðurnes fjallaði á dögunum um álag á starfsfólk í félagsþjónustu, en í þeirri umfjöllun kom fram að hver starfsmaður sem sinni þessum málaflokki í Reykjanesbæ hafi um 40-50 mál á sinni könnu, þegar æskilegt sé að málafjöldi sé í kringum 20. Í handbók Barnaverndarstofu sem gefin var út í lok árs 2015 kemur fram að álagið sé langmest á suðvestuhorni landsins.

Fagaðilar ræðast ekki við og Úrræði eru dýr

Unnur Helga segir að á fundi sem fjölskyldan mætti á með fulltrúa barnaverndarnefndar og fulltrúa frá félagsþjónustunni hafi komið í ljós að fagaðilar ræddust ekkert við og að yfirmenn höfðu ekki áttað sig á alvarleika málsins. Þá hafi komið í ljós að á umræddum fundi að fá úrræði standi til boða þar sem kostnaður sé hár.

“Við fengum þau svör að það sé ekki hægt að vinna með hann vegna þroskaskerðingarinnar eða úrræði séu svo dýr og að bæjarfélagið okkar, Reykjanesbær, sé að spara.” Segir Unnur Helga við Stundina.

„Sparnaður ríkisins og bæjarfélagsins er á kolröngum stöðum. Eftir sitja fjölskyldur eins og mín algjörlega ráðalausar með ungling sem þarf á aðstoð að halda en kerfi sem veitir engin úrræði.“ Segir Unnur Helga.

Starfsfólk Asparinnar og Njarðvíkurskóla hafa reynst fjölskyldunni vel

Sem fyrr segir glímir drengurinn við margþættan vanda og hefur eins og gefur að skilja átt erfitt uppdráttar í skóla, en hann hóf skólagöngu sína í Akurskóla þar var ýmislegt reynt en ekkert virkaði. Úr Akurskóla fór hann í Njarðvíkurskóla en þar er sérstök deild, Öspin, sem er ætluð þroskaskertum og fötluðum nemendum og hefur starfsfólkið Asparinnar og Njarðvíkurskóla reynst fjölskyldunni vel.

„Hann byrjaði skólagöngu sína í Akurskóla í Reykjanesbæ og þar var ýmislegt reynt en ekkert virkaði. Það var því ákveðið að hann færi í svokallað verndað umhverfi, Öspina við Njarðvíkurskóla, en þar hefur starfsfólk haldið vel utan um hann og reynt að að mæta öllum hans þörfum,“ segir Unnur Helga.

“Ég veit hreinlega ekki hvar við værum stödd ef við hefðum ekki fólkið frá Öspinni og stjórnendur Njarðvíkurskóla sem vilja allt fyrir okkur gera.” Segir Unnur Helga.

Sálfræðingur og prestur aðstoða 

Unnur Helga segir að málin séu nú komin í ákveðið ferli, að drengurinn sé nú kominn með tíma hjá sálfræðingi og að prestur muni fara í gegnum sorgarferlið með honum. Það gerðist þó ekki fyrr en eftir að fjölskyldan hafði hótað að fara með þessi mál lengra.

“Núna þegar við höfðum bókstaflega hótað að fara með þetta mál lengra ef við myndum ekki fá aðstoð þá hefur okkur loksins verið útvegað úrræði sem nú á að reyna á. Hingað heim fáum við núna ráðgjafa sem á að reyna að hjálpa okkur en ef ég á að vera hreinskilin þá er bara verið að reyna að gera það sem við höfum margoft reynt; að setja upp umbunarkerfi fyrir hann. Það bara virkar ekki,“ segir Unnur Helga.