Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar ætla að næla í stóran leikmann í jólafríinu – Varnarleikurinn í molum

Njarðvíkingar munu tefla fram nýjum leikmanni þegar Dominos-deildin fer af stað á ný eftir jólafrí Um er að ræða stóran leikmann, nokkuð sem Njarðvíkinga hefur sárvantað í undanförnum leikjum. Þetta kom fram í máli Daníels Guðmundssonar þjálfara Njarðvíkur í viðtali við körfuboltavefinn Karfan.is, eftir leik Njarðvíkur og Þórs Þorlákshöfn, sem Njarðvíkingar töpuðu stórt í kvöld.

Í viðtalinu segir Daníel Njarðvíkinga vera langt komna með að landa samningum við umræddan leikmann og einungis eigi eftir að staðfesta komu hans. Ekki fékkst uppgefið hvaða leikmaður það er sem Njarðvíkingar eru að ræða við.

Varnarleikurinn hjá liðinu hefur verið í molum í undanförnum leikjum, ef frá er tekinn sigurleikur gegn KR á dögunum og staða liðsins í deildinni langt frá því að ver eins og vonast var eftir fyrir tímabilið, en liðið er í næst neðsta sæti deildarinnar.