Nýjast á Local Suðurnes

Guðmundur Auðun spilar um Íslandsmeistaratitil í póker – “þarf að vera temmilega kærulaus”

Guðmundur Auðun einbeyttur á svip - Mynd Pókersamband Íslands

Ungur Suðurnesjamaður, Guðmundur Auðun Gunnarsson, hefur tryggt sér sæti á lokaborðinu á Íslandsmeistaramótinu í póker, sem spilað verður næstu helgi í Reykjavík. Guðmundur er í 5. sæti af níu spilurum fyrir lokahnykkinn.

Íslandsmeistaramótið fer þannig fram að þessu sinni að spilað var í þrjá daga í Borgarnesi og voru um 130 spilarar skráðir til leiks, lokaborðið sem er, eins og áður segir, skipað níu spilurum er svo spilað viku síðar í Reykjavík, en staðsetning hefur ekki verið tilkynnt.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum að þessu sinni, Íslandsmeistarinn fær tæpar tvær milljónir króna í sinn hlut, sá sem lendir í öðru sæti fær um 1,2 milljónir og þriðja sætið um 700 þúsund krónur.

Guðmundur Auðun hefur spilað póker í 8 ár og tekið þátt í Íslandsmótinu fimm sinnum, þetta er í annað sinn sem hann kemst á lokaborð, fyrra skiptið hans var árið 2011, en þá endaði hann í sjötta sæti.

“Ég hef spilað póker í sirka 8 ár, byrjaði í kringum 16-17 ára aldurinn þegar vinirnir vorum alltaf að spila. Maður kunni ekki neitt til að byrja með en þegar ég sá að það væri hægt að verða betri með því að stúdera leikinn að þá gerði ég það.” Sagði Guðmundur aðspurður um hvernig pókerævintýrið hafi byrjað.

“þarf að vera temmilega kærulaus”

Guðmundur er vel þekktur í pókerheiminum hér á landi og er lýst sem afar hugsandi spilara, hann sagði í samtali við Local Suðurnes að það tæki á að spila svona mót:

“Svona mót taka á bæði líkamlega og andlega. Það tekur nefnilega lúmskt mikið á að sitja við borðið tímunum saman og svo auðvitað er þetta svo mikill hugarleikur að menn þurfa að vera úthvíldir til þess að geta tekið réttar ákvarðanir í erfiðum aðstæðum. Það er því mjög kærkomið að geta tekið pásu í viku fyrir lokaborðið og komið ferskur inn á laugardaginn.”

“Undirbúningurinn fyrir lokaborðið er ekkert svakalega mikill þar sem að ég er reynslumikill spilari og mun fara nokkuð rólegur inn í þetta. En ég er þó með nokkra taktíska hluti sem ég hef á bakvið eyrað hvernig ég mun spila gegn mismunandi spilurum í mismunandi aðstæðum.” Sagði Guðmundur

“Maður þarf að vera temmilega kærulaus þegar maður kemur inní svona stór lokaborð og fylgja sjálfum sér í stórum ákvörðunum.” Sagði Guðmundur að lokum.